October 2

Hljóðinnsetning
Posted on October 2nd, 2010 at 10:10 AM by aki

Finnska tónskáldið Sami Klemola hefur sett upp hljóðinnsetningu fyrir utan verslun Handprjónasambands Íslands við Laugaveg 64 í tilefni að Sláturtíð. Gestir og gangandi geta notið hljóða Sama til klukkan 17:00, laugardaginn 2. október.

September 30

Skmendanikka
Posted on September 30th, 2010 at 8:37 AM by aki

skmendanikka

Skmendanikka – Ný tónlist fyrir ný íslensk hljóðfæri.
Fimmtudagur 30. september kl 21:00, Útgerðin, Grandagarði 16

Á tónleikum Skmendanikku verða flutt ný verk eftir SLÁTUR meðlimi. Tónleikarnir eru haldnir í Útgerðinni, Grandagarði 16, annari hæð, og hefjast klukkan 20:00. Aðgangseyrir er 1500 KR en hægt er að fá allt að 100% afslátt með því að mæta á alla tónleika Sláturtíðar.

Á tónleikunum verða flutt eftirtalin verk:

* Guðmundur Steinn Gunnarsson, Halanali (frumflutningur)
* Ingi Garðar Erlendsson, untitled (frumflutningur)
* Jesper Pedersen, Flipp B (frumflutningur)
* Jesper Pedersen, Find the B-flat (frumflutningur)
* Páll Ivan Pálsson, T-1 (frumflutningur)
* Þorkell Atlason, Duel (frumflutningur)

Skmendanikka er tónlistarhópur sem sérhæfir sig í að flytja verk fyrir sértilbúin og stundum heimagerð hljóðfæri. Hana skipa Frank Aarnink (m.a. slagverksleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands), Katie Buckley (hörpuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Duo Harpverk), Sturlaugur Björnsson (fyrrum hornleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, núverandi bruggmeistari) og Snorri Heimisson (fagottleikari og stjórnandi Lúðrasveitar Verkalýðsins). Þrátt fyrir að hafa farið í gegnum sérhæfingu á sín hljóðfæri er um að ræða hæfileikamenn sem skilgreina greind sína ekki útfrá verkfærinu sem þeir nota heldur sínum djúpu tónlistarhæfileikum, listrænni sýn og fjölhæfni. Þeim er því tamt að tileinka sér þau margvíslegu tilraunakenndu hljóðfæri sem detta upp á borðið úr prjónastofu S.L.Á.T.U.R. samtakanna. Hópurinn hefur djúpan skilning á því að til þess að búa til nýja menningu þarf ný verkfæri.

Posted on September 29th, 2010 at 8:23 AM by aki

fengjastrutur

Á fyrsta degi Sláturtíðar verða tveir viðburðir, opnunarhátíð um eftirmiðdaginn og svo tónleikar um kvöldið.

Opnunarhátíð Sláturtíðar
Miðvikudagur 29. september kl 17:00, Njálsgötu 14

Tónlistarhátíðin Sláturtíð hefst með hátíðlegri athöfn í höfuðstöðvum S.L.Á.T.U.R. í húsinu við Njálsgötu 14, miðvikudaginn 29. september. Þar verður dagskrá hátíðarinnar kynnt og auk þess verða óvænt atriði og léttar veitingar. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Fengjastrútur – tónleikar
Miðvikudagur 29. september kl 20:00, Útgerðin, Grandagarði 16

Fyrstu tónleikar Sláturtíðar verða fluttir af Fengjastrúti. Fengjastrútur hefur komið fram á tónlistarhátíðinni UNM við góðan orðstír og þykir í raun einstök hljómsveit á alþjóðlegan mælikvarða. Verkin sem hljómsveitin flytur eru eftir ýmsa S.L.Á.T.U.R. meðlimi sem hafa farið ótroðnar slóðir í nálgun sinni á efnistökum, aðferðum og innihaldi tónlistar sinnar. Tónleikarnir verða í Útgerðinni, Grandagarði 16, á annari hæð. Aðgangseyrir er 1500 KR en hægt er að fá allt að 100% afslátt með því að mæta á alla tónleika Sláturtíðar.

* Hallvarður Ásgeirsson, Miniature #1, (frumflutningur)
* Ingi Garðar Erlendsson, Karaoke 1
* Ingi Garðar Erlendsson, Karaoke 2
* Jesper Pedersen, Flipp A (frumflutningur)
* Magnús Jensson, Lýsi (2010)
* Páll Ivan Pálsson, Snjóholt (frumflutningur)
* Þorkell Atlason, Consumption 1 – súpa og brauð (frumflutningur)
* Þráinn Hjálmarsson, Skúlptúr #2 (frumflutningur)

Fengjastrútur er tónlistarhópur sem einbeitir sér að því að flytja verk sem leitast við á einhvern hátt að endurskilgreina tónlistarflutning. Því spila meðlimir bæði á eigin hljóðfæri og ýmislegt annað, eru tilbúninir til líkamlegra aflrauna og leikrænna tilbrigða ef þess þarf. Hópurinn skilgreinir fagmennsku sína og markmið þannig að best sé að teikna sem skýrast þá hugmynd sem er upp á borðinu og fara inn í verkin í staðinn fyrir að láta sníða verkin fyrir hópinn. Hann samanstendur af 8 fjölhæfum hljóðfæraleikurum sem eiga það sameiginlegt að hafa starfað í fleiri en einum tónlistargeira (jafnvel tveim, þrem, fjórum) og koma með það besta úr þeirri margvíslegu reynslu til þess að birta einstakar tónsmíðalegar hugmyndir.

September 21

Freddy fer á Hestbak
Posted on September 21st, 2010 at 10:05 PM by aki

A Dreaming Seashell Conversation / Draumasamtal við Skelina

Experimental music-painting performance / Tónleikar og myndlist unnið samhliða

Friederike “Freddy” Martinsdóttir Hesselmann mun fara á Hestbak miðvikukvöldið 22. september 2010 klukkan 20:00 á háskólatorgi Háskóla Íslands.

Freddy er með samskynun og mun mála tónlist þeirra Hestbæklinga í rauntíma.  Hljómsveitin Hestbak samanstendur að þessu sinni af þeim Áka Ásgeirssyni, Inga Garðari Erlendssyni og Jesper Pedersen sem leika á ýmis hljóðfæri.

Málunartónleikarnir eru hluti af jafnréttisdögum Háskóla Íslands

Skyn – félag nemenda með sértæka og falda námsörðugleika

Posted on September 17th, 2010 at 2:46 PM by aki

Danslagakeppni S.L.Á.T.U.R. á Keðju verður haldin föstudagskvöldið 8. október kl 21:00 í Borgarleikhúsinu, ekki í Tjarnarbíó!

Posted on September 7th, 2010 at 11:30 AM by aki

keppurinnKEPPNIN UM KEPPINN 2010 ”

Skilafrestur 24. September

Við kynnum hér með danslagasamkeppni S.L.Á.T.U.R. og Keðju Reykjavik 2010. Keppnin er opin öllum

Allt sem þú þarft að gera er að semja nýtt danslag og semja dans við það.

Danslögunum þarf að fylgja nýr dans sem þarf að vera hægt að útskýra fyrir gestum á innan við einni mínútu, t.d. í formi sýnikennslu, myndbands eða munnlegra leiðbeininga. Mögulegt er að fleiri en einn höfundur sendi inn sameiginlegt verk, t.d. tónskáld og danshöfundur. Þegar danslögin verða flutt munu gestirnir sjálfir gefa þeim einkunn sem þeir merkja á sérstakt danskort og sigrar verkið sem fær hæsta samanlagða einkunn salarins og dómnefndar.

Danslögin verða flutt af hljómsveitinni Orphic Oxtra sem að þessu sinni samanstendur af klarinettu, trompet, horni, básúnu, harmónikku, kontrabassa og trommum.

Lögunum skal skilað á nótum í fullbúinni útsetningu og tilbúin til æfinga. Einnig er mögulegt að notast við óhefðbundna nótnaskrift, skjánótur og önnur óhefðbundin fyrirmæli um tónlistarflutninginn. Nánari upplýsingar um hljóðfærin og nótnarithátt veitir Guðmundur Steinn Gunnarsson (gudmundursteinn[att]gmail.com).

Markmið keppninnar er að stuðla að nýsköpun í danstónlistarmenningu á Íslandi. Sérstaklega er sóst eftir nýstárlegum og óvenjulegum verkum þar sem tónlist og hreyfing mynda áhugaverða upplifun þáttakenda.

Frestur til að skila inn verkum er föstudagurinn 24. september og skal fullfrágengnum nótum og danslýsing send á netfangið gudmundursteinn@gmail.com. Þriggja manna dómnefnd fer yfir innsend verk og velur að hámarki 10 verk til flutnings á föstudeginum 8. október kl. 23:00 í Tjarnarbíói. Sunnudaginn 10. október kl. 22:00 ráðast úrslit keppninnar í lokahófi hátíðarinnar Keðja Reykjavík í Svartsengi, gegnt Bláa lóninu.

Verkin mega ekki hafa verið flutt áður opinberlega.


Dancesong Competition of SLATUR and KEDJA REYKJAVIKinformation in english


kedja

Um Keðja Reykjavík:

Keðja Reykjavík er stór og umfangsmikill menningarviðburður sem haldinn verður 8. – 11. október 2010 og Íslenski dansflokkurinn, Listaháskóli Íslands, Borgarleikhúsið, Sjálfstæðu leikhúsin og Reykjavik dance festival standa að.

Keðja Reykjavík er:

* Listviðburðir af öllum stærðum og gerðum sem munu fara fram í miðborg Reykjavíkur, jafnt utandyra sem innandyra þar sem lögð verður áhersla á samruna.

* Vinnustofur, námskeið og umræðuþing þar sem samruni listgreina verður ræddur, kryfjaður og gagnrýndur undir forystu innlendra og erlendra sérfræðinga.

* Einstakt tækifæri fyrir íslenskt listafólk að sýna erlendum kollegum og kaupendum viðburða íslenskar listsýningar. Gert er ráð fyrir yfir 200 erlendum gestum á Keðju Reykjavík og er það fjölmennasta heimsókn erlendra gesta til íslensk sviðlistafólks frá því Evrópska listaþingið IETM var haldið í október árið 2000, í Reykjavík.

Nánari upplýsingar er að finna á http://www.kedja.net og http://www.kedja.id.is

slatur

Um S.L.Á.T.U.R.

Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík eru eldri en marga grunar en fyrstu skrifuðu heimildir um tilvist samtakanna eru frá því um 2005. Samtökin hafa verið leiðandi í menningarmótun tónlistar og verið sameiginlegur vettvangur ýmissa frumlegustu tónskálda Íslands. Samtökin eru sívaxandi, innihalda konur og karla, fólk frá mismunandi löndum og fólk á ýmsum aldri. Starfsemin er fjölþætt og fyrir utan tónlistarviðburði halda samtökin uppi reglubundinni starfsemi í félagsaðstöðu sinni að Njálsgötu 14. Þar eru haldnir atburðir sem tengjast sameiginlegri sjálfsmenntun og annað sem stuðlar að síaukinni ágengni meðlima. Þar hefur almenningur einnig aðgang að tónlist SLÁTUR meðlima og bókasafni SLÁTUR sem inniheldur sérfræðirit um listrænt ágenga tónlist og fleira. Síðasta föstudag hvers mánaðar halda samtökin óformlega tónleika undir nafninu SLÁTURDÚNDUR. Samtökin halda árlega tónlistarhátíðina Sláturtíð, keppnina um keppinn, nýjárstónleika og tónsmíðaviku annað hvert ár. Framtíðarmarkmið samtakanna er að búa til nýja menningu.

Sjá á vefsíðu samtakanna: www.slátur.is

Keppnin um keppinn er keppni Slátursamtakanna í nýsköpun á ýmsum sviðum menningarinnar. Árið 2008 var keppnin haldin fyrsta sinn með marsakeppni á menningarnótt þar sem 40 manna lúðrasveit flutti nýja göngutónlist á götum borgarinnar. 2009 var keppt um gerð nýrra íþrótta. Íþróttirnar voru sýndar í hljómskálanum og besta íþróttin svo valin af dómnefnd. Sigurvegari keppninnar hvert sinn hlýtur “Keppinn”, farandbikar samtakanna, sem er sláturkeppur steyptur úr gegnheilu járni.

Posted on September 6th, 2010 at 9:48 PM by hlynur
Posted on August 23rd, 2010 at 11:43 AM by aki

afmaeli-plakat

Mánudagskvöldið 30. ágúst kl. 20:00 verða tónleikar með verkum Áka Ásgeirssonar í Útgerðinni, Grandagarði 16.

Tónleikarnir eru haldnir að tilefni 35 ára afmælis Áka og innihalda úrval tónverka síðustu fimm ára.

Tónverkin sem leikin verða þann 30. eru öll fyrir ómandi (akústísk) hljóðfæri en notast þó við tölvutækni í sköpun, flutningi og/eða framkvæmd.  Sum notast við hefðbundna nótnaskrift en í öðrum veitir tölvustýrð hreyfimynd hljóðfæraleikurunum upplýsingar um flutninginn.  Í einu verki, 328°, er tölvan í hlutverki e.k. aukahljóðfæraleikara sem slær hljóðfærin með rafknúnum sleglum í samspili við hina mennsku flytjendur.

Efnisskrá:

  • 360°
  • 355°
  • 328°
  • 320°
  • 312°
  • 300° (frumflutningur)

Hljóðfæraleikaranir eru af betri endanum; Magnús Jensson, Tinna Þorsteinsdóttir, Þorkell Atlason, Frank Aarnink, Róbert Reynisson, Sturlaugur Björnsson, Kristín Gunnarsdóttir, Guðmundur Steinn Gunnarsson, Ingi Garðar Erlendsson, Jófríður Ákadóttir, Ásthildur Ákadóttir og Snorri Heimisson.

Tónleikarnir eru hluti af dagskrá nýstofnaðrar Nýmiðlastofu Íslands og skipulagðir í samstarfi við S.L.Á.T.U.R., samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfir Reykjavík.

Aðgangur ókeypis.

Posted on July 24th, 2010 at 3:13 PM by aki

defun
Staðfest er að finnska hljómsveitin defunensemble kemur á Sláturtíð í haust. Hljómsveitin sérhæfir sig í flutningi elektróakkústískrar tónlistar, þ.e. tónlist fyrir rafhljóð með hefðbundnum hljóðfærum. Þau munu flytja finnska og íslenska tónlist á tvennum tónleikum. Meira síðar…

http://www.defunensemble.fi

April 29

Opið hús
Posted on April 29th, 2010 at 10:21 PM by aki

slatur-velkomin

Í tilefni að Sláturdúndri verður opið hús í höfuðstöðvum Slátursamtakanna að Njálsgötu 14, föstukvöldið 30. apríl milli kl. 20:00 og 23:00.