Posted on July 26th, 2008 at 6:16 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008

Eftir tónleikana þar sem Davíð var með verk spjallaði ég við Gerard nokkurn Stäbler (vatnsglas-rödd, palli!?) sem átti verk sem baulað var á deginum áður. Ég var nú samt talsvert hrifinn af því verki ásamt öðrum verkum sem ég hef heyrt eftir hann. Hann ákvað að bjóða viðstöddum í mat og ræða listir og menningu. Það var áhugaverð umræða sem skapaðist um nýnasisma í Þýzkalandi og fótboltabullur og lustir og menningu í Þýzkalandi, Vesturheimi og Austurheimi, en bæði í Vesturheimi og Austurheimi hefur Stäbler dvalið langdvölum eða stuttdvölum.
Ég ynnti hann eftir mismunandi geirum og kimum í þýzkri nútímatónlist og hvort sumir kimar væru víðsfjarri í Darmstadtinu. Hann jánkaði því og sagði að tónlistin sín væri til dæmis ekkert sérstaklega “Darmstadt” og skil ég hvað hann meinar en var áhugavert í ljósi þess að hann átti þó tvö verk á hátíðinni. Hann benti á verk Robert Redgate frá deginum áður sem dæmi um eitthvað sem væri mjög Darmstadt (það vita allir hvað verið er að tala um, með fullri virðingu fyrir Robert Redgate og reyndar frábæru verki). Hann sagði að ákveðnar ættir af öfgakenndri performans art tónlist sem algengar væru í þýzkalandi væru víðs fjarri á Darmstadt en einnig ræddum við hina lágværu Wandelweiser og redúksjónismann sem má þó segja að hafi haft óbeinan fulltrúa, Klaus Lang. Stäblerinn sagði að „félagi“ sinn (elskhugi af ónefndu kyni) væri nú í þessu wandelweiser rugli en hann hafði flóknar tilfinningar gagnvart redúksjónismanum. Honum fannst þeir eiga til að taka niður fyrir sig í hljóðfæraleikurum og slíku og sagði mjög mikilvægt að þegar það eru fáar nótur þá verði þær náttúrulega að hljóma ótrúlega vel. Hann hafði líka efasemdir um ákveðna hugleiðslu pælingu sem ýjað er að í svona tónlist og þá um hvort nægilega mikil hugleiðsla fælist í svona tónlist miðað við þá sem taka hugleiðslu alvarlega og hversu vel tónlistin næði slíkum tilgangi ef það er þá tilgangur hennar (sem ég er ekki beinlínis viss um, en hann stendur þó óneitanlega nær þessu rugli öllu saman).
En þetta var einstaklega skemmtilegt spjall og hann hafði frá mörgu skemmtilegu að segja, hann hefur nokkrum sinnum hugsað sér að koma til Íslands í frí og ég sagðist mundu taka vel á móti honum ef svo færi.

Posted on July 26th, 2008 at 6:15 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008

Síðustu tónleikarnir sem ég sá voru Stipendiumpreistager tónleikarnir (vonandi verða sambærilegir tónleikar á næsta ári, þá með verki eftir Davíðinn). Á tónleikunum voru 5 verk eftir 4 tónskáld, ungir hljóðfæraleikarar (sigurvegarar frá því síðast á hverju sviði fyrir sig) léku. 3 verk voru góð en 2 léleg. Á þessum tónleikum má líka segja að sum verk hafi haft „sigurvegara brag“ yfir sér, þ.e. samin til að vinna keppni einhvers konar einkum vondu verkin tvö sem annað var með tilgerðarlegum hrópum og köllum og hitt sem var með svokölluðu Vortex formi (spyrjið ef þið skiljið ekki, en þið skiljið). Tölum nú um góðu verkin. Fyrst var verk eftir hérna æji hún heitir eitthvað Alexandri Poppulo Socratesar Afródíta eitthvað sem hefur víst verið að strauja festivölinn með konseptúal verkum. Þetta verk hét Yarn og voru strengjahljóðfæri fest saman með streng sem dreginn var létt og lágvært þvers og kruss í gegnum hljóðfærin og langur tími leið þar til „eitthvað fór að gerast“ og þrátt fyrir lítil hljóð las maður vel formið og hvað væri að fara að gerast og það var allt eitthvern veginn rosalega passlegt fannst mér og passlega lítið gerðist og engum óþarfa var við bætt í þessu nánast teatríska verki. Mér fannst þetta mjög fagurt og tilgerðin bara heillandi því þetta var gert af sannfæringu hljóðfæraleikara.
Svo kom helvítis danadjöfullinn Simon Steen Andersen en hann átti tvö verk á tónleikunum, annars vegar sólófiðlu stykki sem leikið var af vinkonu Ingós af leikni og natni. Hart stykki með endurtekningum sem hiksta og fokka í manni, einfaldur auðþekkjanlegur efniviður, bara gliss í tvær áttir leiknar af áfergju og ákafa, mjög flott. Síðara verkið hans og síðasta verk tónleikana var bara í alla staði ótrúlegt. Ég á eiginlega ekki til orð. Ég var bara í sjokki eftir það. Í því var slagverk með miklu rugli, saxófónn, selló og eitthvað fleira bíddu… og 3 megafónar. Megafónunum var stjórnað af sér fólki sem lagði hljóðnema fyrst upp að hljóðfærum og gengu svo af fagurri tilgerð á annan stað og fóru í fídbakk og differens tóna orgíu og settu svo megaf´ónanna saman í keðju þar sem hver magnaði upp hinn. Hljóðfærapartarnir voru ótrúlegir, úr heildin urðu svaka sánd sem mynduðu hálfendurteknar hjakk kenndar textúrur með aggressífum pörtum. Það er mjög erfitt að lýsa verkinu en það var í alla staði gríðarlegt og ég get lítið útskýrt gífurleika þess hér og nú.
Nú vil ég ekki vera að draga fólk í dilka en geri það samt en það má sjá mynstur þó ekki mjög einföld í ákveðnum tendensum ungu kynslóðarinnar, þá einkum Alessöndru, Simon, Davíði og Annesley og jafnvel Robin Hoffmann um einhvern konseptúalisma í breiðustu merkingu þess orðs. Ég á erfitt með að fullyrða um það hvað ég sé sameiginlegt í verkum þessara tónskálda en það er eitthvað annað upp á pallborðinu en hjá þeim mun eldri tónskáldum. Það er kannski andstaða við hefðbundið músíkalskt narratíf og gestúrur sem er sameiginlegt einkenni, oft eitthvað sem er ekki „háfleygt“ eða „upphafið“ á yfirborðinu eða í hefðbundnum skilningi. Erfitt og hættulegt er að fara út í svona skilgreiningar, en það er kannski frekar skilrúmið sem þessi tónskáld hafa við hefðbundnar hugmyndir um tónlistarlegar „hákveður.“ Ég skal ekki segja meira um þetta hér og nú.
Annað en það að ég var mjög ánægður að heyra að Simon hefði unnið Kranichsteininn, ásamt gaurunum tveim sem voru með vondu verkin (þ.e. 3 deildu verðlaununum) en hin gríska var skilin útundan eitthverra hluta vegna. Venjulega finnst mér svoldið asnalegar svona keppnir og í eðli sínu ekki líklegar til að heiðra neitt annað en það sem þegar hefur verið samþykkt, enda ekki hægt að keppa nema fólk sé örugglega að spila nákvæmlega sömu íþrótt. Það gefur mér þó mikla trú að Simon hafi fengið verðlaun og að Davíð hafi fengið Stipendiumpreis, því að í báðum tilfellum er um að ræða mjög einkennilega tónlist sem erfitt er að setja á hinar hefðbundnu mælistikur en eru í raun frumleg, því þó Davíð og Simon hafi lært hjá „rétta“ fólkinu er ekki auðséð að þeir séu að semja „réttu“ tónlistina.

Posted on July 26th, 2008 at 6:13 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008
Seinni vikuna var talsvert farið að krauma í kleinuhringnum. Ákveðnir aðilar voru í ruglinu með að reyna að kynna sig fyrir fólki sem er í ákveðnum dómnefndum og slíku. Einnig var tekið upp á því að byrja að baula á tónleikum og eftir það var baulað á öllum tónleikum á eftir öðru hverju verki (nema hjá Kurtag sem átti það þó skilið). Einnig var farið að heyrast raddir um þýzkar bloggsíður sem ásökuðu marga um elítisma, einkum Ferneyhough og nemendur og ráðist var á persónulegum og fagurfræðilegum árásum. Á Stúdíokonsertunum átti ein bresk stelpa verk sem að er í raun ekkert annað en kafli úr hefðbundnum enskum söngleik. Þetta olli reiði meðal hljóðfæraleikara en tveir hættu við að spila í verkinu og annar sagði „ég kom ekki í Darmstadt til þess að spila eitthvað svona“, en það er gaman þegar fólk hefur gert sér svo skýrt mótaða hugmynd um „Darmstadt-framúrstefnu“ að það verður hreinlega móðgað ef eitthvað er ekki á rétta lund (reyndar gat þetta ekki hugsanlega verið nálægt neinu sem talist gæti rétt í Darmstadt og fær því rokkprik þó það fengi tippahauskúpu í öðru samhengi).
Síðan voru pallborðs umræður um nótnaritun þar sem að Baltakas réðst á post-ferneyhough-rúnkisma í nótnaskrift sem honum finnst víða komið út í vitleysu hjá nemendum hátíðarinnar. Ferneyhough tók þetta sjálfur mjög harkalega til sín sem beina gagnrýni og sagðist ekki bera ábyrgð á svona og sæktist síður en svo í að hafa nemendur sem herma eftir sér. Baltakas tók dæmi sem mér fannst mjög leiðinleg um „einfalda og skýra nóteringu“ og vakti til umræðu á ábyrgð gagnvart hljóðfæraleikurum, en mér fannst þeir punktar frekar lélegir og leiðinlegir þó gagnrýni á endalausar „hreiðursólur“ og „órökréttir taktboðar“ sem eftirhermusýndarmennsku rúnk séu sjálfsagðar. Ferneyhough sagði: “I feel a bit attacked here” og stríð var hafið. Restin af pallborðsumræðunum varð því eins og nauta-at, nautið ræðst að áfergju í upphafi, en það vita allir að það er að fara að deyja og áheyrendur njóta þess að sjá líftóruna kreista úr því. Ferneyhough svaraði fyrir sig af mikilli orðsnilld og mjög góðum punktum þó svo að margir áheyrendur væru að missa sig í halelújah og ramtsjaja. Ferneyhough talaði um nótnaskrift sem óaðskiljanlega menningu, bakgrunni/hefð og eðli tónlistarinnar og að nótasjón væri langt frá því að vera eitthvert tónlistarlegt esperanto þar sem það væri alltaf ein einfaldasta leiðin til að nótera allt. Hann tók sem dæmi misheppnaðar „einfaldanir“ á skorum Sylvano Busotti sem hefðu ekki gert neitt annað en að eyðileggja þá einkennilegu alkemíu sem einkennir verk hans. Á hinn boginn nefndi hann „einfaldar nótur“ með „spíritúal“ skilaboðum í orðum sem hann hefði séð sem honum fannst meira en lítið einkennilegar og tilgerðarlegar á vondan hátt. Þetta var áhugavert og skemmtilegat að sjá og fernellinn var sem fyrr hafsjór af upplýsingum og skemmtilegum hugmyndum um tónlistarsögulega samanburði. Marco Stroppa sat allan tímann sem illa gerður hlutur milli tveggja elda. Haft var eftir honum eftir á að hann vildi aldrei aftur stíga í pontu með Ferneyhough sökum orðflaums sem hann ætti erfitt með að penetrara í gegnum. Glassúrinn var farinn að bráðna ofan af kleinuhringnum.

Posted on July 26th, 2008 at 6:11 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008

Í Darmstadt er mikið af þáttakenndum frá Austurlöndum. Þeir virðast þó vera pínu út af fyrir sig í hverju landi fyrir sig og eru mjög misgóðir í ensku og þýzku. Ég gerði það að gamni mínu viljandi og óviljandi að reyna að kynnast og lesa inn í þessa hópa, einkum, kínverski hópurinn og kóreski hópurinn.
Þess má geta að það var ekki hægt að komast hjá því að skynja almenna vanvirðingu og áhugaleysi í garð asísku liðanna frá Evrópsku og Amerísku liðunum. Á duo konflikt tónleikana (sem innihéldu japanskan og kóreskan aðila og aðallega asíska tónlist) mættu nánast engir fölhvítir og þeir sem mættu byrjuðu baulið. Einnig heyrði ég margar umræður þar sem talað var pent um (en þó meinað) hvers vegna í andskotanum mikið af asíska fólkinu væri hérna, sem skildi margt hvorki almennilega ensku né þýzku og virtist ekki „taka tónlist alvarlega“ eða vera bara í allt öðrum pælingum fagurfræðilega.
Eftir skemmtilega setustund með kínverska liðinu þar sem ég sá hljóðfærafræðibók á kínversku með vestrænum hljóðfærum (klassík og rokk) og kínsverskum hljóðfærum í sömu bókinni opnaðist fyrir mér ný vídd. Leikin voru fyrir mig ýmiss kínversk verk eftir ungtónskáld sem áttu flest fullt af verkum í fallega innbundnum möppum með fallegum kínverskum táknum. Þau áttu flest margra þátta verk eða röð af svítum um vorið og haustið og jörð og vatn og ég veit ekki hvað og hvað. Svo heyrði ég leikið á píanó mjög undarlega tónlist sem ég verð að segja að er á allt öðrum stað í menningunni. Það var eins og notuð væru mótíf úr „nútímatónlist“, „rómantískri tónlist“ og „kínverskri tónlist“ en sett saman á einhvern undarlegan hátt þar sem ég fékk á tilfinninguna að það sem ég þekkti í tónlistinni væru bara orð, tökuorð sem fengið hefðu á sig nýja mynd og merkingu í undirliggjandi tungumáli sem ég hefði engan skilning á. Ég áttaði mig á því að ég gat ekki auðveldlega dæmt, þetta er nú bara eitthvað rugl, vegna þess að eftir að hafa heyrt nokkur svipuð verk fattaði ég að undir niðri var einhver syntax eða regla eða merkingarfræði sem ég skildi bara ekki. Því þó svo að orðin séu skiljanleg og allt er inn á ramma píanóss og vestrænnar nótnaskriftar, er eitthvað undirniðri í tónlistinni sem er í raun gjörsamlega annað. Fágunin er á háu stigi en syntaxin og fagurfræðin er svo ólík að ef maður reynir að heyra þetta sem vestræna nútímatónlist hljómar það bara eins og eitthvað bull, en er í raun allt annað.
Kóresku liðin töluðu um merkingu á hátt sem ég skildi ekki. „Hvað þýðir þetta verk?“, „hvað þýðir þetta hljóð?“ spurningar sem ég skil ekki hvað liggur að baki. Eftir að hafa borðað sama kvöldmatinn í viku spurðu kínverjarnir mig hvort svipaður matur væri étinn á Íslandi og jánkaði ég því. Það fannst þeim athyglisvert. Kínverjarnir undruðu sig (án gagnrýni) á einhæfninni og veltu líka fyrir sér almennri einhæfni og grámyglu í litavali á byggingum og slíku í Þýskalandi. Einn kínverji sem var að læra í þýskalandi var mjög hrifinn af tækninni hjá þýskum tónskáldum en fannst tónlistin oft ekki alveg nógu falleg, hún væri jú falleg á sinn hátt og flott óhljóð og svona, en hann vildi meiri „fegurð.“ Asísku liðin ferðuðust oft í liðum, og höfðu oft einn í liðinu sem var meiri tungumálamaður en flestir og þýddu fyrir restina. Merkilegast fannst mér þó „skorturinn á alvarleika“ hjá einkum kínverjunum. Þeir virtust ekki hafa neina feimni í því að sýna bækur sínar af 50 píanó etýðum eða „chinese art song“ lögum og töluðu ekki um tónsmíðar sínar á upphafinn hátt eða í blindri þrá eftir elítísku samþykki heldur virtust hafa jarðbundna nálgun að sköpuninni sem var ekki þrungin rómantískum kvíða og þunga. Athyglisvert og kennir manni hversu lítið maður skilur í raun.

Posted on July 20th, 2008 at 6:18 PM by aki

Written by Þráinn Hjálmarsson
sunnudagur, 20 júlí 2008
Tónleikar í Skálholti Laugardaginn 19.júlí 2008 kl. 17

Kolbeinn Bjarnason hélt tónleika ásamt Guðrúnu Óskarsdóttur í Skálholti laugardaginn 19.júlí sem að bar titilinn öfganna á milli 2 þar sem flutt voru verk eftir Tosio Hosokawa, Brian Ferneyhough, Mario Lavista, Diana Rotaru, Noriku Miura og Huga Guðmundsson. Tilefnið var hálfrar aldar afmæli Kolbeins í ár.

Að sækja tónleika í Skálholti þarfnast tækni hvað það kemur að því að hagræða tímanum, ég var að mér fannst endalaust lengi að komast útúr Kópavoginum, þar sem Kópavogurinn nær alveg fram fyrir litlu kaffistofuna, Kolbeinn hélt fyrirlestur um verkin og skáldin fyrir tónleikana.

Kolbeinn er æðislegur fyrirlesari, stemningin er yfirveguð og alveg sama hvað hann tekur fyrir, það kemur enginn efasemdartilfinning um leið og maður skilur ekki alveg. Það sem ég hafði mestar mætur á var að heyra hvernig hann kæmi að þessum verkum en vegna þess hve erfilega tókst að komast útúr Kópavoginum náði ég bara korteri sem að fór í Brian Ferneyhough og sagði hann frá aðkomu sinni að tónlist Ferneyhoughs, hún var í bland sett uppí fyndni og ekki, mögulega til þess að hræða ekki þá sem komnir voru. Svona tónsmíðarúnk getur verið mesta Narnía fyrir leikmenn, það vitlausasta sem maður gerir sem leikmaður er að skella sér strax djúpt inní Narníuna, þar tekur við ekkert annað en vonbrigðin, sem að lýsir sér í afneitun. Það sem að mínu mati var eftirteknarverðast var hans analýsa á verki Ferneyhoughs “Mnemosyne” fyrir bassaflautu og tape, hann vildi meina að verkið væri nokkurs konar gestúrusmíð samsett úr frekar mörgum köflum, þar sem grunntempó aðskildi hvern hlut fyrir sig, þetta var vitaskuld smá einföldun fyrir fólkið sem að hlýddi á fyrirlesturinn. Skýrði hann einnig frá tengslum þátta verksins, þessi analýsa fannst mér einungis drepa á einhverju yfirborði sem að var ekki endilega sönn, sannfærður um að míkró verksins sé þeim mun strúktúreraðra, jafnvel eru þessar tempóbreytingar í hlutum verksins hluti af kerfi fyrir þéttni efnis og upplýsinga hjá honum, ég veit annars ekkert um Ferneyháfinn, væri rosa til í að heyra einhverja punkta um hans músík.

Tónleikarnir sjálfir voru samsettir af nokkuð mörgum ræðum, nokkrum einræðum og nokkrum díalógum, öll músíkin sem var flutt á tónleikunum var rhetorísk, Kolbeinn náði að bregða sér í nokkuð mörg mismunandi hlutverk í ræðum sínum. Þeir karakterar sem að stigu í pontu voru frá klámkenndum (klám = illa gerður hlutur) ofsatækismönnum(Hosokawa stykkið) til þöglumælts drukkins félaga (Ferneyhough stykkið)

Mnemosyne eftir Brian Ferneyhough er vissulega ofhlaðið upplýsingum, en það er svo fagurt hvernig maðurinn sorterar út upplýsingar, heildin var ekkert annað en þöglumæltur drykkjumaður sem að reynir að segja svo margt í einni setningu, oftast myndi sá maður enda á orðum líkt og “skilurru?” og “þú ert svo frábær, ég er að segja þér það, ekki dæma bókina útfrá kápunni!” Ferneyhough sleppir slíku en Kolbeinn dregur fram slík hrif í flutningnum.

Líkt og ég hef sagt þá voru öll stykkin Rhetorísk, sem sumsé gera ráð fyrir að hlutir séu og aðrir hlutir séu ekki (A og ekki A) formhlutar voru ekkert svo skemmtilegir A A’ B C í Noriko Miura stykkinu sem var með verkið Narkissos og Echo (2007)

Hugi Guðmundsson átti verk (Ascendi fyrir altflautu og sembal) sem að hljómaði einsog sagt var í prógramminu “uppávið”, ég veit ekki hvað hann vildi meina með því, því jú allt í stykkinu leitaði uppávið, ég var mjög feginn að vera kominn svona langt að úr kópavoginum útí Skálholt til að lyfta mér aðeins upp. En það er skemmtilegt að fylgjast með hverju skrefi hjá Huga, hann sem að þreifar sig varlega áfram í tónefni, (síðast sá ég Hex fyrir strengi og horn), alltaf tilbúínn í að hosa til baka ef það stefnir í ógöngur.

Diana Rotaru átti verkið “Play!” fyrir flautu og sembal, sem var ágætis díalóg sembals og flautu, flautan sagði eitt og semballinn tók smá undir þá orðaræðu og svo varð almenn samstaða, það sem heillaði mig var nýtt hlutverk sembalsins, ég veit að oftast eru hljóðfæri gildishlaðinn ákveðnum tilfinningablæ, semballinn hefur dottið inní svona gír hefur mér fundist en Diana tókst að búa til eitthvað smá nýtt þegar kemur að því.

Það kom samt á óvart að engin þessara ræða innihélt einhvers konar byrjunarávarp eða svona “comic relief” sem er svo mikilvægt í mælskulistinni, að meira segja Bach á svona til að leyfa einhverju öðru að koma inn sem að hefur ekkert að segja með söguna ræðuna sjálfa.

Klapplaust Skálholtið er magnað, hvergi annars staðar verður maður jafnruglaður í hvernig maður gæti gefið í skyn ánægju sína með flutninginn. Þarna er kippt undan gagnrýni áhorfandans á meðan leikunum stendur, Stefnum á klappandi Skálholt 2012!

-Þráinn Hjá

Posted on July 16th, 2008 at 6:21 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
miðvikudagur, 16 júlí 2008

Áður en Manosinn snappaði á mig hafði ég skráð mig í hóptíma til þessa fyrrverandi verðandi fyrirlesara unm. Er við mættumst á göngunum var keppni í illkvittnishrokafullum glottum. Á tónleikum einum kemur hann að mér í hléi og segjir: „ég vill hitta þig og tala aðeins við þig, ég hef áhuga á því sem þú ert að gera, ég er forvitinn og langar til þess að vita meira, en ekki um eitthvað helvítis tölvurugl, heldur hvað þú ert að pæla.“ Ég sagði honum að ég væri nú skráður í tíma hjá honum morguninn eftir. „Fullkomið!“ sagði Manosinn.
Ég fer til hans í svona pallborðs hóptíma þar sem hann fer yfir verk hinna og þessa og er bara hinn viðkunnalegasti og spyr hæfilega gagnrýnna spurninga eins og gengur og gerist og allt í góðum málum. Hann bað mig að segja frá og ég fór í svona fyrirlestrargír og spilaði nokkur stutt tóndæmi í þeim tilgangi að reyna að útskýra ákveðið heildarkonsept umhverfis takt, endurtekningar, form og nótasjón í ákveðnum verkum. Manos var hinn blíðasti og sagði að þetta væri mjög áhugavert. Eitt tóndæmið leist honum talsvert betur á en önnur, þar sem meiri „díteilar“ og „núansar“ gerðu vart við sig, í svona óhóflega dýnamísku verki að mínu mati. Manosinn sagði þó: „það fer í taugarnar á mér hvað þetta er mekanískt, viltu hafa þetta svona?“ Ég skildi fyrst ekki nákvæmlega hvað hann átti við en sagði að það væri hið besta mál, ég hefði áhuga á að nota hljóðfæri og hljóðfæraleikara eins og menningarlausa hluti sem hefðu verið fundnir út á götu. „Já en eins og ef þú ert með verk þar sem eru bara tvær nótur og ekkert annað í hverju hljóðfæri, breytast þær ekkert, breytist ekkert við þær?“ „Ekki endilega nóturnar sjálfar en kannski fraseringar og styrkur.“ „Ég hef pínu grunsemdir um þessa mekaník, Chris Newmann, þegar hann gerir verk sem eru bara hrá og gróf þá finnst mér kannski að hann ætti að gera meira við þau, en hann segir nei, þetta er bara svona og ég skil það í hans tilfelli. Þetta er mjög fallegur og myndrænn hljóðheimur hjá þér og mér finnst einhvern veginn ekki passa að hann sé svona vélrænn.“ Svo rifumst við aðeins um redúksjónisma og mysteríu, og hann sagði að ég væri að vinna með undarlegan redúksjónisma sem honum fyndist mjög áhugavert, en hefði enga mystík. Ég spurði af hverju hann héldi endilega að þetta ætti að vera mystískt og hvort að mystík tengd reduksjónisma tengist ekki því þegar fólki finnst að það eigi að vera meia í mússíkinni í stað þess að hlusta á það sem er. Það sem eftir situr er þó eitthvað sem ég held að sé að hluta til rétt, sumsé bara komment varðandi núansaðri og vandaðri orkestrasjón, sem er mjög viðeigandi, hvað varðar ákveðna þætti. En það er erfitt að útskýra þetta fyrir öðrum því að boltaverkin mín eru í raun eins og burðargrind með engri áklæðningu. Með því að vinna með hana nakta sé ég betur hvað er að gerast, en það er erfitt fyrir aðra að sjá það sama og ég er að sjá út úr rytmunum sérstaklega út af því að það er ekkert annað en rytmi í flestum þessum verkum. Fyrir þá sem verða á unm þá verð ég með verk sem heitir golma sem sýnir á mjög frumstæðan og einfaldan hátt hvert ég er að stefna þó ákveðnir hlutir í því verki hafi mér þótt misheppnaðir og hef síðan búið til reglur sem banna það sem þar gerist. En stefnan er ekki að gera hjakkið í tónlistinni minna, heldur að búa til skýrari konótra sem breytast á viðeigandi hátt á viðeigandi parametrum, ekki öllum, t.d. ekki tónum eða tónsviði.

Posted on July 16th, 2008 at 6:19 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
miðvikudagur, 16 júlí 2008
Ég hætti við að skrifa hefðbundnar gagnrýnir eftir að ég var farinn að punkta niður í efnisskránna eins og alvöru gagnrýnandi og ákvað að fara að hlusta aftur eðlilega og gleyma bara því sem er auðgleymanlegt. Í stað þess ætla ég að skrifa um nokkur óvenjuleg verk sem standa upp úr. Fyrst ber að nefna annað verk eftir Annesley Black sem átti byrjun hátíðarinnar. Hún var með verk í Kunsthalle ljós og hljóð eftirpartýjinu á sunnudaginn. Þar var hún með verk sem byrjaði á mjög flottum rafhljóðum með skemmtilegum rytmapælingum. Einstaka raunhljóð heyrðust á bakvið svarta skermi. Svo bröltu fram þrír krakkar í íþróttafötum sem spóluðu í gólfinu. Svo byrjuðu þau að sippa í einkennilegum takti, svipað og rafhljóðin, mjög flott, lengi. Svo færðu þau sig um set og byrjuðu að sippa annars staðar þar sem sippuböndin slógust í járnstangir. Svo fóru þau aftur til baka duttu á gólfið og út. Ferlega smart atriði, vel æft og sviðsett, gott rugl, Annesley Black fær fullt samþykki mitt.
Á mánudeginum voru þrír tónleikar, tveir mjög góðir og einir mjög vondir. Vondu voru aðrir heilir tónleikar með leiðinlegum míníatúrum fyrir fá hljóðfæri eftir Gyorgy Kurtag. Þeir fyrstu voru slagverkstónleikar sem voru með allt í lagi verki eftir Lisu Lim sem er flott tónskáld, en ekki hennar besta verk og allt í lagi verki eftir Wolfgang Rihm sem er að mínu mati ömurlega ógeðslega sjúklega leiðinlegt tónskáld, en þetta var langtum bestasta verk sem ég hef heyrt eftir hann. En ástæða þess að ég skrifa um þessa tónleika er fyrsta verkið sem var eftir Davíð nokkurn Franzson. Ég bara veit ekki hvar ég á að byrja. Ég held ég hafi skrópað á frumflutningin á þessu verki á sínum tíma, þegar ég fattaði að ég þyrfti að taka fjórar strætólestir á sunnudagsáætlun og kæmist ekki heim fyrr en næsta dag. Það var rangt. Þetta verk sem er fyrir 6 slagverksleikara er alveg rosalegt. Hann er algjör hálfviti þessi drengur. Þetta verk er bara hljóð og einhvern veginn. Ekki hljóð í einhverjum Lachenmann skilningi vegna þess að þau búa ekki til gestúrur sem verða til þess að tónlistin tákni eitthvað annað en sjálfa sig, t.d. tónlistarlegan fílíng eða grúv. Verkið byggir á umhverfisupptökum sem settar eru í meðhöndlun algóritmískrar taktvélar skáldsins. Verkið hefur sterkan keim af umhverfishljóðaupptökum en hefur samt ótrúlega sterkt form og fallega ódramtíska byggingu sem þó er viðburðarík. Samt sem áður er allt rosalega ómenningarlegt. Þetta er bara einhvern veginn og svo gerist bara eitthvað rugl og svo bara þögn og eitthvað en hangir allt rosalega vel saman. Hljóðin eru vel unnin og vönduð án þess að vera synþesuð í eitthvað skraut. Svo kemur bara merkingarlaus púls og merkingarlaus pentatóník inn í miðju. Ef eitthvað þá minnti þetta mig helst á hin svokölluðu númeraverk Cage en mun meira orkestrerað. Tilfinningin var þó ekki mjög „við erum að lesa nótur tíminn líður, núna, næsta, já“ heldur var flæðið mjög „eðlilegt“ og bara fallegt á mjög ótilgerðarlegan hátt, það er náttúrulega alltaf tilgerð að gera svona mikið rugl en þið vitið hvað ég meina, virkaði eðlilegt. Gríðarlegt verk í alla staði.
Seinustu tónleikarnir þetta kvöld voru eins verks langverks tónleikar með rosa dúndur hittara eftir Klaus Lang sem heitir Einfalt, Stille. Slagverk, söngkona, víóla og flauta á mismunandi stöðum í rýminu í resónerandi kirkju fluttu fáar og langar nótur í skemmtilegum stillingum. Mjög flott verk sem er fáanlegt á geisladisk og skorið er hægt að panta frá skorfélaginu ehf.
Þriðjudagur var ekkert sérstaklega eftirminnilegur, en í dag var dáldið flippað verk eftir sænskt fyrrum unm tónskáld sem brann út á nýflækjunni en sá heitir Christopher Anthin. Hann var með verk fyrir klasísskan gítar og kassettutæki sem heitir playmaster. Fyrst heyrðist léleg sinófnísk tónlist á bandi og klassíski gítarinn spilaði svona lélega með. Mjög ófullnægjandi, svo varð tónlistin verri og verri á bandinu og minna og minn heyrðist í gítarnum sem var orðinn út úr tjúni við bandið og þetta varð sífellt lélegra og amatörlegra þangað til að segulbandið var komið í ógðeslegt teknó sem yfirgnæfði gítar sem lék fáa lélega hljóma með. Svo heyrðist rödd segja eitthvað á þessa leið „I wrote this piece, how do you like my piece, It took me 3 years to write“ smá hlé „do you like my piece“? Skemmtilegt flipp sona.

Posted on July 14th, 2008 at 6:23 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
mánudagur, 14 júlí 2008
Fyrirlestrar dagsins voru spjall um lífið á þýzku og því notaði ég tækifærið til að sofa út, þvo þvott og fara í sund. En á laugardeginum voru líka tveir tónleikar. Báðir með Arditti kvartettnum og báðir einungis með verkum eftir Brian Ferneyhough. Sennilega er að verða komið 30 ára samstarfsafmæli þessara pilta, en ætli allt upprunalega vesenið hans Ferneyhough hafi ekki gert krulla og félaga vel í stakk búinn til að frumflytja 100 verk á ári, full af kjaftæði og rugli. Maður gerði sig því klárann í að dýfa sér ofan í fjöllaga setbergs byggingar flækjumeistarans víðfræga. Þess bera að geta að fólk á hátíðinni er í ruglinu í kringum þennan mann, krýpur á kné og biður um eiginhandaráritanir.

Á fyrri tónleikunum var flutt svokölluð sónata fyrir strengjakvartett sem flóki burknason samdi aðeins 24 ára að aldri. Flott en dáldið gamaldags, fannst mér, svona á yfirborðinu. En langt verk (ég sofnaði líka smá). Á seinni tónleikunum var hins vegar boðið upp á strengjakvartetta, svokallaða, númer 2,3,4 og 5. Strengjasveitin knáa var að leika kvartettana í 18. -99. skipti, takk fyrir. Bara eins og Maus á sínum tíma, alltaf að spila. Það var rosa stemning að dýfa sér svona ofan í ógæfuna, flækjast inn í fjórvíð völundarhús. Ég sat mjög framarlega og fékk þetta alveg í andlitið. Það er kannski eitthvað skrýtið við syrpukennda hegðun venjulegrar tónleikadagskrár eins og gengur og gerist og það var vel að hafa ekkert nema þetta á einum tónleikum. Það voru samt fyrsti og seinasti, 2.kvartett (1980) og sá fimmti (2006) sem ég hafði messt gaman af. Þar var messt hægt að heyra tengingar milli svipaðra efnisgerða í gegnum verkið, það er, stokkið milli svona blokka af efnistýpum sem eru aldrei eins en maður tengir saman þegar svipað yfirborð kemur aftur. Fjórði kvartettinn var líka svakalegur en þar var söngkona sem gekk til liðs með þeim og tók Fernelinn alveg í kernelinn. Hún fór á kostum gjörsamlega. Hún var einnig með handahreyfingar (þið vitið, „ómeðvitaðar“ í súrum nýflækjusöngnum sem notaðist við uppklippur á orðhlutum í ljóðum eftir Ezra Pound, En handahreyfingarnar voru mjög flottar og minntu á uppahálds söngvarann minn, japanska spunasöngvarann Mochigami Kosugi (kannski aðeins vitlaust stafstett).
Í rauninni er þessi bunki bara bálkur slagara. Bara aðgengilegt og skemmtilegt, algjört súkkulaði. Þetta er að sumu leyti minna kjaftæði en mig minnti, oft sem hljóðfærin koma öll saman í eitthvað dúndur og svona skýrleiki bara. Lítil ógæfa miðað við marga af nemendum hans eins og t.d. Richard Barrett sem er með virkilega ógæfu í gangi, en það er svona, ógæfumetin verða alltaf slegin. Það var æðislegt að sjá Arditti og félaga spilaði þetta, hreiðursólurnar voru ekki staglkennd kvöð heldur liðu þær áfram eins og fuglasöngur, mjög auðkennismiklir efnisbútar þrátt fyrir fáa viðmiðunarpunkta. Þá er bara að bíða eftir næsta kvartett sem er væntanlegur 2010 og vonandi að hann nái að semja fleiri en Bartok. Kannski 15 eins og Shostakovich? Tékkið samt á Mendelsohn í D-dúr. Nei ég er nú bara að grínast. Og þó, hver veit. Brahms annar, konfekt. Egg og salt. Geðveikt!

Posted on July 13th, 2008 at 6:30 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
sunnudagur, 13 júlí 2008

Það voru tveir ágætis fyrirlestrar sem ég sá á miðvikudag. Fyrst var það saxófónleikarinn Marcus Weiss sem kynnti nýútkomna bók sína um framlengda tækni og fleira. Það var áhugaverður fúnksjónal fyrirlestur, hann talaði líkt og trompetleikarinn knái gegn því að hugsa um framlengda tækni sem svona valmöguleika á lista (eðli neysluhyggjunnar og þar með síðnúhyggju, innskot undirritaðs) heldur að skilja hvernig þær tengjast og hvernig þetta virkar, svæði sem eru tengd og virka vel saman t.d. Í svona multifóníkkum.

Næst var fyrirlestur Misato Mochikuzi. Flott tóndæmi, verð ég að segja. Rosalega fín orkestrasjón af svona myndrænni dýralífsorkestrasjón sem var skemmtilega ótungumálakennd, í bakgrunni var svona fjarlægur púls sem hún talaði um sem svona mælistiku. Hún talaði ómarkvisst um áhrif úr vísindum og fór í rauninni ekki djúpt í neitt heldur spilaði vandaða vel hljómandi mússík og kom með svona litlar pælingar þess á milli sem voru áhugaverðar. Hún útskýrði endurtekningar sínar með áhuga sínum á ljósmyndum og löngun til þess að frysta augnablik. Svona flöffí en skemmtilegar pælingar. Einnig um Buckminster Fuller og blöðru borgir, eða borgir sem svífa í lausu lofti og verk sem hún byggði á þeirri pælingu.

Þá var ferðinni heitið í íþróttahús á tónleika Ascolta hópnum, en flest verkin voru eftir frekar ung tónskáld. Öll verkin voru fyrir svona sirka 8-10 hljóðfæri. Fyrst var verk eftir eftur Mörtu Gentilucci. Það fannst mér frekar vemmilegt í sándi. Elektrónísk hljóð léku stórt hlutverk og urðu dáldið vafasöm á köflum, einstaklega vafasamur var rafbassapartur. Næsta verk var eftir Annesley Black. Þegar verkið byrjaði þá hugsaði ég með mér að þetta væri bomban, alla vega það besta hingað til. Tja byrjunin var alla vega mjög góð, það var svona pupu með mjútaðann trompet og slide banjó í broddi fylkingar. Svo fór það skyndilega í eitthverja gliss orgíu milli sellós og blásýju og svo eitthvað pínu annað og annað. Mér fannst verkið ekki halda sig nógu afmarkað en Davíð fannst það vera of afmarkað. Það er kannski sama vandamálið (meira það sama eða aldrei það sama eru að mörug leyti skildari hugtök en stundum það sama með andstæðum). Eduardo Moguillansky átti síðan svona vel ortan hittara sem hann stjórnaði sjálfur. Rosalega vel gert og stutt og laggott en ákaflega ófrumlegt. Þetta var kannski svona smá lachenmann með rómönsk ættuðum blæbrigðum. Verkið var of fínt og er því vont, fellur í ormagöngin (sjá kort páls um skýrleika og gæði). Síðasta verkið er gagnstætt að segja um. Það var verkið abgewandt-musik fur hörende eftir Nikulaus Brass. Það var groddalegt og svona „lélegra“ í núönsum og hnoði en verkið á undan en svaka fínt hávaði og pönk með háværum blásýum og slagverki og svo lágværir kaflar inn á milli. Öfugt við verkið á undan var það hins vegar langt og ekkert í seinni hluta þess virtist réttlæta lengdina, frá mínum bæjardyrum séð.

Um kvöldið voru svo tónleikar með einni af „gömlu hetjunum.“ En það er gamla hetjann sem enginn man eftir og enginn veit af hverju hann er einn af hetjunum miklu (af fólki í kringum mig). En hann á eitt óumdeilanlegt framyfir flestar af hinum gömlu hetjunum, jú, hann er ekki dauður. Við erum að tala um Gyorgy Kurtag. Já hann. Það er bara eitt verk eftir hann sem ég hef hlustað á af athygli og mér fannst það leiðinlegt fyrst og svo hlustaði ég á það með skorinu og fannst það frábært þá. Því miður man ég ekki hvað það heitir. En vandamál mitt við hans tónlist er að hún er kannski jafnvel eldri en hann er. Jú, hún byggir á línum og svoleiðis. Þess vegna á hann mikið af löngum verkum fyrir fá hljóðfæri. Þessir tónleikar voru fokking tveir tímar af klassísku rugli. Fyrst var helvíti ógeðslega langur dúett fyrir sópran og fiðlu. Hljóðfæraleikararnir fóru alveg á kostum og mússíseruðu svoleiðis alveg bara, ha. Verkið er röð af míniatúrum sem notast við brot úr skáldsögum Kafka sem texta. Þegar ég segji röð af míníatúrum þá meina ég mjög löng röð af ógeðslega mörgum míníatúrum. Míníatúrarnir skiptast í 4 stórar grúppur og þegar þriðja var að byrja var ég þegar farinn að hugsa mér leið út úr þessum heimi. Hápunktur verksins var þegar það var búið, af því það var búið, en hápunktur kvöldsins var að sjá Kurtag gamla skjálfandi af ánægju með flytjendurna í sitthvorum lófanum og lyfti skjálfandi höndum upp og áheyrendur hylltu sem guð. Af skyldurækninni einni fór ég ekki í hléinu og hlustaði á byrjunina á næsta verki sem var talsvert skárra, en nei, þolinmæði mín var búinn og eftir þrjá mínatúra í því langa mínatúraverki (fyrir slagverk, barítón, fiðlu, víólu og selló) fór ég út, hingað og ekki lengra.

Posted on July 13th, 2008 at 6:29 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
sunnudagur, 13 júlí 2008

Ég mætti mjög lítið á fyrirlestra á fimmtudeginum, enda mikið á þýsku og minna spennandi hlutir og var þess í stað í tölvunni að undirbúa gjörning föstudagsins. Þó sleppti ég ekki tónleikum og fór í Pálskirkju og heyrði þar orgeltónlist. Það voru fínir tónleikar. Fyrst var verk eftir einhvern Hermann Markus Pressl sem mig grunar að sé bara eitthver outsider, eða svona jaðarmenni einhvers konar. Verkið var alla vega afar sérkennilegt og sérviskulegt og pínu lélegt á heillandi hátt. Þrír kaflar, bara endurtekið eitthvað rugl, ekki nógu stutt rugl til að vera naumhyggjukennt og svona semí tónal með vandræðagangi í raddfærslu sem var mjög gegnsær. Eiginlega mjög heillandi. Næst kom verk eftir Klaus Lang sem er annar af yngstu meisturum hátíðarinnar, átti kótó og blokkflautuverk sem ég skrifaði áður um. Hér var heldur ekkert slor á ferðinni. Bara puuuuu skrýtið lélegt óstabílt og veiklulegt hljóð úr orgelinu lengi, eitthvað smá on off, breytingar. Svo kom þrisvar sama nótan sungin mjög látlaust af sópran söngkonu í miðjunni og svo hélt orgelsuðið áfram og búið. Æðislegt! Næst var verk eftir Feldmanninn sjálfan. Klassík. En ólíkt öðrum klassískum verkum á hátíðinni þá er þetta með því lélegra af verkaskrá tónskáldsins. En merkilega lélegt ef maður þekkir vel hans mússík, vegna þess að það tengir hið misskilda mið-tímabil (8.áratug) feldmanns við síð-Feldmanninn (9.áratugur) sem hefur slegið svo rækilega í gegn á þessum síðustu og verstu. Gaman að hlusta á það hvað það er lélegt með það fyrir augum að vita hvað þetta er að reyna að verða. Get ekki aðskilið þetta verk úr minni Feldmannólógíu.

En það voru síðdegistónleikar í kirkjunni, þá að kvöldtónleikunum. Það var strengjakvartetta keppni sponsoreruð af eitthverjum annars flokks auðkýfingi. Semsagt allt verk eftir ung tónskáld sem sóttu um að fá að vera með fyrir ári og þurftu svo að sér semja fyrir Arditti kvartettinn, fengu mikinn tíma til að vinna með þeim og fengu tækifæri (þeir sem vildu) að hanna rafhljóðavesen í StrætisWögnumReykjavíkur (SWR rundfunk, svæðisútvarp suðvesturlands, Stokkseyri). Öll verkin hljómuðu eins og þau væru samin til að vinna í keppni, höfðu sumsé verulegan „keppnisanda“ en það er ekki þar með sagt að þau hafi verið vond, þau voru bara svona svakalega „glæsileg“, öll. Fyrsta verkið var 7.strengjakvartett Bartoks eftir Birke Berelsmeier. Næst var langbesta verkið, sem vann þó ekki, clearing eftir Kristian Ireland. Það byrjaði á agressífum skrúðningi og um miðbik verksins var geðveikt sánd í gangi sem ég hélt að væri að koma úr tölvunni, en nei þá var bara helvítis sellóið með eitthvað sánd sem gert er með hálfgerðum yfirtón sem er að detta inn og út, smá sul ponticello og svona einu hári af boganum (útskýring höfundar verksins). Fallegt í formi og magnþrungin spilamennska popparanna skemmdi ekki fyrir. Næst var verk eftir hina portúgölsku Patriciu Manuelu Fernandes Sucena de Almeida og var það næst besta stykki tónleikanna. Það var aðeins minni „vinningshafi“ í stíl en hin verkin og var með svona allar raddirnar að hjóla í köku stopp hjóla í köku stopp hjóla í köku… gaman. Síðast fyrir hlé kom Serbneskt verk eftir Miliciu Djordevic sem er fædd 1984 og yngst á prógramminu, verkið hefði verið fínt hefði það ekki verið léleg útgáfa af verkinu hans Kristian og með of miklum Kontröstum og mússík.
Eftir hlé voru svo verk með elektróník. Ég hef eitt svona almennt um það að segja. Mér er hugsað til Roscoe Mitchell sem sagði um spuna að þegar fólk er of mikið að reyna að kalla og svara, þá verður útkoman eins og allir séu að lesa mússík og einn sé eftirá. Svona samplihljóðbjögun, spiluð til baka eftirá er svipað fyrirbæri. Öll verkin eftir hlé voru þannig, og synthesa milli rafhljóða og hljóðfæra var enginn önnur en sú að þetta voru oft bara lítt breyttar upptökur spilaðar til baka, í öllum verkunum. Rafhljóðin voru líka einstaklega ótilraunakennd og óævintýraleg og óskiljanlegt af hverju rosa stúdíu á suðvesturlandi skildi þurfa að hafa nokkuð að gera með þetta. En verkin eftir hlé voru léleg fyrir utan verk eftir Christopher Trebue Moore sem var hart og flott, og kannski best raflega séð líka.

Eitt af lélegu verkunum eftirhlé vann. Væmið og asnalegt með lélegri elektróník. Davíð hafði þó séð fyrir að það myndi vinna þrátt fyrir að finnast það ekkert gott.