February 10
Myrkir MúsíkdagarWritten by Þráinn Hjálmarsson
sunnudagur, 10 febrúar 2008
Myrkir Músíkdagar 2008 eru að lokum, dagskráin var víðamikil og fjölbreytt. Næstum ómögulegt að sjá allt það sem var í boði, ég bendi á ýmislegt sem stóð uppúr enda margt misgott á hátíðinni: Verkið HEX fyrir horn og strengi eftir Huga Guðmundsson á tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur, þótti mér nokkuð flott, enda ótrúlega hrifinn af því sándi sem að svipar til Bents Sörensens, það var þó bara fyrsti kafli verksins sem var á einhvern hátt líkur orkestrasjón (þykku strengjaglissin) herra Sörensens. Flutningur Stefáns Jóns var með eindæmum góður og það sama átti við um flutning Einars Jóhannessonar í verki Hafliða Hallgrímssonar “La Serenissima” sem var óvenju leiðinlegt en þó vandað handverk í alla staði. Tónleikar Trio Lurra voru með áhugaverðari tónleikum hátíðarinnar þar sem öll verkin eru fyrir þessa óvanalegu samsetningu bassaklarinett, flautu og píanó, tríóið var feiknavel spilandi þó að dagskrá tónleikanna hafi ekki verið svo góð í samsetningu. Verk Atla Ingólfssonar “Atloid 301” og “Atloid 302” voru þó flott og einnig “Trio Parlando” eftir Hróðmar I. Sigurbjörnsson. Njúton tónleikarnir í Iðnó vour í alla staði flottir, flutningurinn og efnisskrá voru í senn fjölbreytt/ur og markviss(?). „Hingra“ Guðmundar Steins fyrir bassaflautu og slagverk var ágætlega flutt og heldur skemmtileg smíði, þar sem tenortromma fangaði alla mína athygli. Simon Steen-Andersen átti verkið „In spite of and maybe even therefore“ sem var stórgott, performance stykki með flautu, horni og klarinettu í forgrunni, sett var á svið stórskemmtilegur leikur sem enginn skyldi hvað gekk útá en hljóðfærin voru tekin sundur og saman og leikið á þau, í bakgrunni var þykkur hljómveggur sem að endurtók sig að hluta aftur og aftur. Það var skrýtið hversu léleg Sinfóníuhljómsveit Íslands var á tónleikum á fimmtudeginum þar sem fluttar voru tvær nýjar sinfóníur eftir Atla Heimi Sveinsson (nr. 3) og John Speight (nr. 4). verkin voru kannski ekki þau bestu á hátíðinni en þó var vandað til verka í smíði þeirra. Það er engin leið að skilja af hverju Sinfónían kom þessu svona illa frá sér, flutningurinn var laus í sér og kærulaus, algjör vanvirðing við tónskáldin. Adapter er grúppa sem á eftir að gera stórgóða hluti í framtíðinni, það virðist allt leika í höndunum hjá þeim. Fóru þau feiknagóðum höndum um verk Þuríðar Jónsdóttur og Davíðs B. Franzsonar. – ÞH