Posted on March 6th, 2008 at 6:58 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Ég hef ætlað mér að skrifa um hina og þessa tónleika í dágóða stund en lítið gert í því. Ég geri meira af því að slefa. En ég ætla að taka smá yfirlit yfir nokkra tónleika sem gaman væri að deila með ágengnum af mismunandi ástæðum. Það sem tengir saman alla pistlana sem hér á eftir koma er orðið fánaberi sem ég hef haft sérstakt dálæti á undanfarið.

Francis Dhomont og Louis Dufort voru með tónleika í hinu goðsagnakennda rými Recombinent Media Labs í San Francisco. Um er að ræða rými sem er með 16 hátalara kerfi og 16 skjávarpa og transdúsera sem hrista gólfið og ég veit ekki hvað og hvað. Aðal ástæða þess að ég kýs að fjalla um þessa tónleika er sú að rýmið var að leggja upp laupana. Deilur milli aðila einn hirti rýmið og annar græjur, eitthvað eitthvað. Davíð og fleiri hafa sagt mér undarlegar sögur um aðstandendur þessarar stofnunnar, erfingjar, fyrrverandi hjón, ógæfa, eitthvað og eitthvað annað. Um svipað leyti fékk ég ekki vinnu hjá skyldri stofnun sem kann að skýra af hverju þetta fór allt til fjandans. En einmitt skemmtilegur tónleikastaður að koma á og oft raflistamenn sem koma og vinna sérstaklega með rýmið.
Fyrir þá sem ekki vita er Francis Dhomont helsti flaggberi hinnar fransk-Kanadísku Musique Acousmatique stefnu. Þetta þýðir bara raftónlist af bandi. Hann er gamall og fagurfræði tölvuhljóðanna eftir því. Í sumum verkum var hann með ógeðslega vond vídjó sem einhver annar hafði gert. Louis Dufort er yngri og sennilega nemandi eða fylgifiskur Dhomont. Hans tónlist var ungæðislegri og agressífari og skyldi meira eftir sig, að mér fannst. Lokaverkið tók bikarinn en það var verk sem Dufort gerði sérstaklega fyrir rýmið og notaði alla hátalara og skjádót, sörránd í augu og eyru. Það var stórskemmtilegt og kröftug upplifun, jafnvel þó fagurfæðin væri dáltið næntís. Fleiri verða ekki orðin hér.

Posted on March 6th, 2008 at 6:56 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Rosalegir tónleikar rosalegs Koto leikara. Fyrir leikmann eins og mig hljómar hún eins og venjulegur Koto leikari, en fyrir hefðbundna grafalvarlega japanska kotoleikara árið 1960 eða fyrr, var spilamennska hennar hneyksli. En síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og Kazue er fánaberi nýja Kótósins. Hún lék sóló kótóverk af stakri snilli. Lék svo með Shakuhachi leikara frá Oregon sem var að sjálfsögðu hvítur maður með rakað hár en fléttu að aftan, öskrandi jurtate. En hljómaði mjög vel. Hún lék verk eftir hina og þessa, forn og ný, tvö eftir fyrrverandi eiginmann sinn sem voru frábær og eitt eftir son sinn sem var hryðjuverk. Sonurinn skrifaði fyrir saxófón og kótó með flamenco ívafi, FJÁRSEKT. En eiginmaðurinn fyrrverandi skrifaði rosaleg verk fyrir Koto hljómsveit. Komu þá 12 kótó á sviðið, sum bassa og sum venjuleg og var þá heldur betur dúndrað. Það voru ótrúleg hljóð sem mynduðust þegar 12 Kótó gerðu fáránlega einfalda hluti eins og að strjúka hendinni yfir strengi, lemja með kjuða þannig að skoppi og fleira slíkt. Samband tónskálds við hljóðfæri var augljóst. Besta stykki tónleikana var þó verk eftir Yuji Takahashi, sem ég hef dálæti á (bróðir Aki Takahashi en ef mér skjátlast ekki þá var það Yuji sem frumflutti Herma eftir Xenakis, getur það verið? Er ég ekki bara eitthvað að steypa). En verk Yuji´s var hrikalega hljóðlátt verk fyrir fimm strengja koto (næstum því ekki hljóðfæri, svo litlir möguleikar) og rödd sem hummar ofurlágt, varla að það heyrist. Einhver var elektróník en hún blandaðist gjörsamlega inn þannig að ég vissi ekki hvenær hún var að gera eitthvað með röddinni og hvenær rafhljóð voru í spilinu.

Posted on March 6th, 2008 at 6:52 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Kom seint og heyrði mjög venjulega raftónlist flutta af Jason Kahn. Samt fínt. Þar næst spilaði Tim Catlin frá Ástralíu sem spilaði á raf og undirbúinn gítar. Alveg ömurlegt. Bara hrikalega lélegt í alla staði. Fer ekki út í það nánar. Missti af Ulrich Krieger sem ég hafði séð á frekar ömurlegum tónleikum nokkrum dögum áður þar sem hann lék með ýmsum. Sá er þýzkur saxófónleikari sem notast við raf, ekkert meira við það. Svo kom sleggjan sem tók bikarinn, í lokinn, verk eftir Zbigniew Karkowski sem áður nefndur Ulrich Krieger spilaði í ásamt fólki sem ég þekki. Allir léku í míkrófóna sem virtust tengjast inn í eitthvert massíft djúpt fídbakk fjöltengi þar sem allt virtist módjúlera allt. Aðallega heyrði maður massífan djúpan hávaða og þegar hljóðfærin spiluðu heyrði maður þau aðeins í bakgrunni en aðallega hvernig þau hrærðu í hljóðinu sem var í gangi. Þannig að aðallega heyrði maður eitt hljóð allan tímann sem var alveg geðveikt. Get ekki lýst þessu betur. Algjört dúndur og ég óska eftir frekari upplýsingum um þennan Pólverja sem lærði í Svíþjóð og er víst búsettur í Japan. Vil nálgast meira af hans músík.

Posted on March 6th, 2008 at 6:50 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Já ég fór og var allann daginn og kvöldið líka. Tók allt maraþonið, fyrir utan smá í byrjun. Kom inn þegar Berglind og Tinna voru að spila. Svaka flott en urðu fyrir aðkasti reverbfræðings á takkaborðinu. Mjög flott brot úr verki eftir Karólínu Eiríks sem heitir Stjörnumuldur. Eiginlega bara mjög flott. Heyrði svo allt verkið degi síðar. En þær léku einnig verk eftir Evan Ziporyn sem er svona slagari og gerðu vel. Og svo var bara tíminn búinn og NÆSTI. Þá tók við Carla Kihlstedt með einhvers konar drama án leikhlutans. Tónlist sem var einhver svona skrýtin kabarett rokkópera í 7/8 með gamansömu ívafi og ógðeslega „góðum“ tónlistarmönnum (trommari með sessjónsvip). Smekklaust frekar, eitthvað of vestkóst við þetta, skil ekki sumt svona dót sem fólk lætur eftir sér hér um slóðir. Dósaglamursalstjörnusveitin kom og lék verk eftir Lukas Ligeti og annað eftir Fred Frith sem voru bæði bara fín en ekkert sérlega eftirminnileg, en dáltið bangonacanlegt, svona rutmískt og pólírutmískt og dáltið stuð og rokk. Mjög flott band að sjá svona og svaka dúndúr sánd og svona. Pamela Z kom og gerði skrýtið með rödd og tölvu og skynjuðum hreyfingum. Eitthvað hallærislegt vídjó og gaur að spila það sama lengi á prepared kassagítar. Edmund Welles Bassaklarinettu kvartettinn. Fjögur bassaklarinett að spila frumasamið þungarokk. Svæðisbundnir menn úr SF conservatory. Svaka góðir, svaka kraftur. Hljómar samt allt eins í þriðja lagi. Þá fara líka bassaklarinett að hljóma meira og meira eins og eitthver plaströr. Svo komu Bang on a Can liðið aftur á svið og léku nýtt verk samið fyrir þau eftir Alvin Lucier sem var æðislegt. Hægt og rólegt og liðaðist kringum eina nótu, bikar dagsins! Því næst léku þau verk eftir Thurston Moore gítarleikar Sonic Youth sem var skelfilegt. Bara eins og sessjon spilarar að kovera sonic youth. FJÁRSEKT! Svo endaði dags dagsskráin á lélegu lélegu lélegu. Cheb I Sabbah. Fjöleþnískt popp. Lélegt. Asnalegt.

Kvöld dagskráin byrjaði svo á fánabera bangonacan slögurum eftir aðal hirðtónskáld hópsins Juliu Wolf, David Lang og Michael Gordon. Ég er enginn fan en það var svaka dúndur og gaman og sjaldan að maður sér svona flókna fjölhryns músík dúndraða í svona sándi og fílíng. Virkaði mjög vel. Þrjú fyrstu verkin semsagt fín. Restin var svo léleg að ég nenni ekki að skrifa um það. Það voru samstarfsverkefni með Don Byron (drasl) og Ivo Pittova (fín ein en hópurinn hafði engu við að bæta og reyndi að vera djammband í anda greatful dead) DAUÐAREFSING! En gaman að vera búinn að fara á svona maraþon. Pælingin með maraþon er mjög skemmtileg og það er gaman að vera á maraþoni.

Posted on March 6th, 2008 at 6:49 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Drón og myndir af fólki að vinna. Phil Niblock er einn af fánaberum drónsins og hefur verið lengi. Mjög falleg drón sem umvefja mann og draga mann inn í sig og eru áhugverð lengi því það er svo margt í þeim. Hins vega var bara drón, þrjú stór löng drón og myndir af fóki að vinna. Eftir tónleikana talaði ég við John Bischoff fyrrum kennara minn. Hann sagðist hafa séð Niblock fjórum sinnum á næstum 30 árum. í öll skiptin hafði það verið fínt og mjög svipað. Drón og myndir af fólki að vinna.