July 13
Darmstadt-Miðvikudagur.Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
sunnudagur, 13 júlí 2008
Það voru tveir ágætis fyrirlestrar sem ég sá á miðvikudag. Fyrst var það saxófónleikarinn Marcus Weiss sem kynnti nýútkomna bók sína um framlengda tækni og fleira. Það var áhugaverður fúnksjónal fyrirlestur, hann talaði líkt og trompetleikarinn knái gegn því að hugsa um framlengda tækni sem svona valmöguleika á lista (eðli neysluhyggjunnar og þar með síðnúhyggju, innskot undirritaðs) heldur að skilja hvernig þær tengjast og hvernig þetta virkar, svæði sem eru tengd og virka vel saman t.d. Í svona multifóníkkum.
Næst var fyrirlestur Misato Mochikuzi. Flott tóndæmi, verð ég að segja. Rosalega fín orkestrasjón af svona myndrænni dýralífsorkestrasjón sem var skemmtilega ótungumálakennd, í bakgrunni var svona fjarlægur púls sem hún talaði um sem svona mælistiku. Hún talaði ómarkvisst um áhrif úr vísindum og fór í rauninni ekki djúpt í neitt heldur spilaði vandaða vel hljómandi mússík og kom með svona litlar pælingar þess á milli sem voru áhugaverðar. Hún útskýrði endurtekningar sínar með áhuga sínum á ljósmyndum og löngun til þess að frysta augnablik. Svona flöffí en skemmtilegar pælingar. Einnig um Buckminster Fuller og blöðru borgir, eða borgir sem svífa í lausu lofti og verk sem hún byggði á þeirri pælingu.
Þá var ferðinni heitið í íþróttahús á tónleika Ascolta hópnum, en flest verkin voru eftir frekar ung tónskáld. Öll verkin voru fyrir svona sirka 8-10 hljóðfæri. Fyrst var verk eftir eftur Mörtu Gentilucci. Það fannst mér frekar vemmilegt í sándi. Elektrónísk hljóð léku stórt hlutverk og urðu dáldið vafasöm á köflum, einstaklega vafasamur var rafbassapartur. Næsta verk var eftir Annesley Black. Þegar verkið byrjaði þá hugsaði ég með mér að þetta væri bomban, alla vega það besta hingað til. Tja byrjunin var alla vega mjög góð, það var svona pupu með mjútaðann trompet og slide banjó í broddi fylkingar. Svo fór það skyndilega í eitthverja gliss orgíu milli sellós og blásýju og svo eitthvað pínu annað og annað. Mér fannst verkið ekki halda sig nógu afmarkað en Davíð fannst það vera of afmarkað. Það er kannski sama vandamálið (meira það sama eða aldrei það sama eru að mörug leyti skildari hugtök en stundum það sama með andstæðum). Eduardo Moguillansky átti síðan svona vel ortan hittara sem hann stjórnaði sjálfur. Rosalega vel gert og stutt og laggott en ákaflega ófrumlegt. Þetta var kannski svona smá lachenmann með rómönsk ættuðum blæbrigðum. Verkið var of fínt og er því vont, fellur í ormagöngin (sjá kort páls um skýrleika og gæði). Síðasta verkið er gagnstætt að segja um. Það var verkið abgewandt-musik fur hörende eftir Nikulaus Brass. Það var groddalegt og svona „lélegra“ í núönsum og hnoði en verkið á undan en svaka fínt hávaði og pönk með háværum blásýum og slagverki og svo lágværir kaflar inn á milli. Öfugt við verkið á undan var það hins vegar langt og ekkert í seinni hluta þess virtist réttlæta lengdina, frá mínum bæjardyrum séð.
Um kvöldið voru svo tónleikar með einni af „gömlu hetjunum.“ En það er gamla hetjann sem enginn man eftir og enginn veit af hverju hann er einn af hetjunum miklu (af fólki í kringum mig). En hann á eitt óumdeilanlegt framyfir flestar af hinum gömlu hetjunum, jú, hann er ekki dauður. Við erum að tala um Gyorgy Kurtag. Já hann. Það er bara eitt verk eftir hann sem ég hef hlustað á af athygli og mér fannst það leiðinlegt fyrst og svo hlustaði ég á það með skorinu og fannst það frábært þá. Því miður man ég ekki hvað það heitir. En vandamál mitt við hans tónlist er að hún er kannski jafnvel eldri en hann er. Jú, hún byggir á línum og svoleiðis. Þess vegna á hann mikið af löngum verkum fyrir fá hljóðfæri. Þessir tónleikar voru fokking tveir tímar af klassísku rugli. Fyrst var helvíti ógeðslega langur dúett fyrir sópran og fiðlu. Hljóðfæraleikararnir fóru alveg á kostum og mússíseruðu svoleiðis alveg bara, ha. Verkið er röð af míniatúrum sem notast við brot úr skáldsögum Kafka sem texta. Þegar ég segji röð af míníatúrum þá meina ég mjög löng röð af ógeðslega mörgum míníatúrum. Míníatúrarnir skiptast í 4 stórar grúppur og þegar þriðja var að byrja var ég þegar farinn að hugsa mér leið út úr þessum heimi. Hápunktur verksins var þegar það var búið, af því það var búið, en hápunktur kvöldsins var að sjá Kurtag gamla skjálfandi af ánægju með flytjendurna í sitthvorum lófanum og lyfti skjálfandi höndum upp og áheyrendur hylltu sem guð. Af skyldurækninni einni fór ég ekki í hléinu og hlustaði á byrjunina á næsta verki sem var talsvert skárra, en nei, þolinmæði mín var búinn og eftir þrjá mínatúra í því langa mínatúraverki (fyrir slagverk, barítón, fiðlu, víólu og selló) fór ég út, hingað og ekki lengra.
July 13
Darmstadt-Fimmtudagur.Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
sunnudagur, 13 júlí 2008
Ég mætti mjög lítið á fyrirlestra á fimmtudeginum, enda mikið á þýsku og minna spennandi hlutir og var þess í stað í tölvunni að undirbúa gjörning föstudagsins. Þó sleppti ég ekki tónleikum og fór í Pálskirkju og heyrði þar orgeltónlist. Það voru fínir tónleikar. Fyrst var verk eftir einhvern Hermann Markus Pressl sem mig grunar að sé bara eitthver outsider, eða svona jaðarmenni einhvers konar. Verkið var alla vega afar sérkennilegt og sérviskulegt og pínu lélegt á heillandi hátt. Þrír kaflar, bara endurtekið eitthvað rugl, ekki nógu stutt rugl til að vera naumhyggjukennt og svona semí tónal með vandræðagangi í raddfærslu sem var mjög gegnsær. Eiginlega mjög heillandi. Næst kom verk eftir Klaus Lang sem er annar af yngstu meisturum hátíðarinnar, átti kótó og blokkflautuverk sem ég skrifaði áður um. Hér var heldur ekkert slor á ferðinni. Bara puuuuu skrýtið lélegt óstabílt og veiklulegt hljóð úr orgelinu lengi, eitthvað smá on off, breytingar. Svo kom þrisvar sama nótan sungin mjög látlaust af sópran söngkonu í miðjunni og svo hélt orgelsuðið áfram og búið. Æðislegt! Næst var verk eftir Feldmanninn sjálfan. Klassík. En ólíkt öðrum klassískum verkum á hátíðinni þá er þetta með því lélegra af verkaskrá tónskáldsins. En merkilega lélegt ef maður þekkir vel hans mússík, vegna þess að það tengir hið misskilda mið-tímabil (8.áratug) feldmanns við síð-Feldmanninn (9.áratugur) sem hefur slegið svo rækilega í gegn á þessum síðustu og verstu. Gaman að hlusta á það hvað það er lélegt með það fyrir augum að vita hvað þetta er að reyna að verða. Get ekki aðskilið þetta verk úr minni Feldmannólógíu.
En það voru síðdegistónleikar í kirkjunni, þá að kvöldtónleikunum. Það var strengjakvartetta keppni sponsoreruð af eitthverjum annars flokks auðkýfingi. Semsagt allt verk eftir ung tónskáld sem sóttu um að fá að vera með fyrir ári og þurftu svo að sér semja fyrir Arditti kvartettinn, fengu mikinn tíma til að vinna með þeim og fengu tækifæri (þeir sem vildu) að hanna rafhljóðavesen í StrætisWögnumReykjavíkur (SWR rundfunk, svæðisútvarp suðvesturlands, Stokkseyri). Öll verkin hljómuðu eins og þau væru samin til að vinna í keppni, höfðu sumsé verulegan „keppnisanda“ en það er ekki þar með sagt að þau hafi verið vond, þau voru bara svona svakalega „glæsileg“, öll. Fyrsta verkið var 7.strengjakvartett Bartoks eftir Birke Berelsmeier. Næst var langbesta verkið, sem vann þó ekki, clearing eftir Kristian Ireland. Það byrjaði á agressífum skrúðningi og um miðbik verksins var geðveikt sánd í gangi sem ég hélt að væri að koma úr tölvunni, en nei þá var bara helvítis sellóið með eitthvað sánd sem gert er með hálfgerðum yfirtón sem er að detta inn og út, smá sul ponticello og svona einu hári af boganum (útskýring höfundar verksins). Fallegt í formi og magnþrungin spilamennska popparanna skemmdi ekki fyrir. Næst var verk eftir hina portúgölsku Patriciu Manuelu Fernandes Sucena de Almeida og var það næst besta stykki tónleikanna. Það var aðeins minni „vinningshafi“ í stíl en hin verkin og var með svona allar raddirnar að hjóla í köku stopp hjóla í köku stopp hjóla í köku… gaman. Síðast fyrir hlé kom Serbneskt verk eftir Miliciu Djordevic sem er fædd 1984 og yngst á prógramminu, verkið hefði verið fínt hefði það ekki verið léleg útgáfa af verkinu hans Kristian og með of miklum Kontröstum og mússík.
Eftir hlé voru svo verk með elektróník. Ég hef eitt svona almennt um það að segja. Mér er hugsað til Roscoe Mitchell sem sagði um spuna að þegar fólk er of mikið að reyna að kalla og svara, þá verður útkoman eins og allir séu að lesa mússík og einn sé eftirá. Svona samplihljóðbjögun, spiluð til baka eftirá er svipað fyrirbæri. Öll verkin eftir hlé voru þannig, og synthesa milli rafhljóða og hljóðfæra var enginn önnur en sú að þetta voru oft bara lítt breyttar upptökur spilaðar til baka, í öllum verkunum. Rafhljóðin voru líka einstaklega ótilraunakennd og óævintýraleg og óskiljanlegt af hverju rosa stúdíu á suðvesturlandi skildi þurfa að hafa nokkuð að gera með þetta. En verkin eftir hlé voru léleg fyrir utan verk eftir Christopher Trebue Moore sem var hart og flott, og kannski best raflega séð líka.
Eitt af lélegu verkunum eftirhlé vann. Væmið og asnalegt með lélegri elektróník. Davíð hafði þó séð fyrir að það myndi vinna þrátt fyrir að finnast það ekkert gott.
Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
sunnudagur, 13 júlí 2008
Lítið hefur borið á blogginu síðan á miðvikudag en fimmtudag og föstudag fór ég nefnilega í undirbúning á smá flutningi sem fór fram í gær. Áður nefndur Manos Tsangaris sér um sérstök „eftirpartý“ með tónlistaratriðum þar sem þemað er notkun hljóðs og ljósa í samtvinningu. Þáttakenndum var velkomið að koma og vera með stutt atriði, annað hvort búin til fyrir þetta eða öðruvísi. Mér fannst þetta ljósasjó vera gott tækifæri til að illúminera og ákvað því að slá til og bjó skyndilega til styttingu og reduksjóna á öðru verki. Ég hef búið til rugl nýlega í processing og ég hafði hugsað mér að nota einfalt myndmál til þess að vera hljóðfæri innan í tónlistinni, hegða sér eins og tromman í Gagaku tónlist, merkja einingar og þannig myndi visjúallinn auðvelda manni að fatta ákveðnar tengingar. Ég náði að tengja þetta og allt er vel. Ég fann hljóðfæraleikara í þetta sem voru á námskeiðinu með því að tala við kennara sem kenndu á hljóðfærin sem ég vildi fá og tróð mér svo inn í masterklass næsta dag til að næla í einn af nemendum þeirra. Hljóðfæraskipanin varð því trompet (með harmónmjút), altósax, harmóníkka, fiðla og víóla. Verkið er semsagt stytting, einföldun og endurútsetning á boltaverki sem heitir Staðlafell og var frumflutt síðasta haust á Thingamajigs hátíðinni í flóanum, en það verk var fyrir slagverk og „fundna hluti.“ Ég var með mína tölvu, dabbi lánaði mér sína en ég þurfti þriðju en mátti nota tölvu Manos Tsangaris. Svo kom á daginn að það var pc tölva og rétt fyrir einu æfinguna var allt komið í köku og nánast ekkert virtist vera að virka. Davíð var mér þó innan handar og hjálpaði mér fram úr undarlegum ógæfumerkjum.
Æfingin varð því að almennri útskýringu og hljóðfæraleikararnir spiluðu bara sömu röddina í æfingarskyni og svo sleppti ég þeim og sagði að þetta yrði allt í lagi á eftir, kvíðið engu! Ég varð því að skrópa á tónleika kvöldsins til að finna út úr tölvumálum og það hafðist, á endanum varð allt smurt og ég eyddi miklum tíma í að láta skjávarpadæmið líta rétt út. Það semsagt lýsti á tölvurnar þrjár þar sem hljóðfæraleikararnir áttu að vera. Skjávarpinn var upp á palli og úr fókus, lýsti mjög stórt, lengst í burtu út í horn og niðrá gólf, svo setti ég pappír á ena linsunnar frá tveim hliðum til að mýkja línurnar af vörpuninni. Allt fór í gang samtímis og ekkert rugl. Þar sem annað atriði var á undan varð ég að slökkva á tölvunum því hitt verkið átti að vera í myrkri. Verkin átti bæði að flytja tvisvar. Svo fóru hljóðfæraleikarnir að mæta og rétt fyrir okkar flutning ætluðum við svona að fara yfir málin meðan áheyrendur voru í öðru herbergi að drekka bjór en þá fóru osc vandamál að gera vart við sig. Ekkert var að virka og Davíð stakk upp á því eina rétta í stöðunni, tölvunum verður startað samtímis með speisbarnum! Áheyrendur komu inn, þetta var gert. Við tölvu númer þrjú var bara eitt hljóðfæri, víóla (en ekki tvö eins og á hinum) og rétt áður en verkið byrjaði hafði víóluleikarinn spurt mig, hvað ef þetta fer ekki í gang hjá mér, á ég þá bara að feika það? Já sagði ég af vantrú um að slíkt myndi gerast auk þess sem tafir höfðu þegar orðið á dagskrá út af tæknivandamálum. Verkið hófst og allt fór í gang nema tölvan hennar, svo hún varð að feika, en einmitt í hennar tölvu var prósessing parturinn, þannig að skjávarpinn lýsti bara stillmynd allan tímann. Að öðru leyti var bara rennt í gegnum þetta í þessari losaralegu útgáfu (í mín eyru, þar sem míkrótími er aðalatriðið í verkinu frá mínum bæjardyrum). Trompet, harmóníkka og saxófónn, eru fremstir í hverri hendingu og unnu vel, og því náðu helstu útlínur verksins að koma fram. Fyrir einhvern sem er að heyra þetta í fyrsta skipti er kannski ekki mikill munur (þó eitt hljóðfæri sé í ruglinu) og flutningurinn varð aðgengilegri en hann átti að vera sökum músíseringar þessara miklu hljóðfæraleikara. Því bara léttara fyrir vikið. Í endan kom hali á sóló fiðlu sem ég hafði ætlað að klippa út, en sú breyting virtist ekki hafa seifast þannig að fiðlan hélt ein áfram í tvær mínútur eftir að hitt var hætt. Manos varð brjálaður, þar sem þetta fór yfir ætlunartíma og lét kveikja ljósin og ég reyndi að gefa henni merki um að hætta bara en dáleiðingarkraftur skjásins er svo þungur að það náðist ekki. Ég klappaði því mitt eigið verk niður í þögn stuttu áður en halinn er alveg búinn.
Ég fór beint í skjávarpatölvuna til að fatta af hverju dæmið hefði ekki farið í gang og einhver stelpa kom upp að mér og spurði hvot ég gæti útskýrt í stuttu máli hvað í helvítinu þetta er? Hver er pælingin? Ég svaraði ekki þar sem U.N.M. vinir frá Noregi og Finnlandi voru komnir að þakka mér fyrir og kíkja í tölvuna, enda eru þeir farnir að þekkja þessa vitleysu. Manos Tsangaris dró mig svo til hliðar og snappaði á mig. „Hvar var hið nauðsynlega samspil ljóss og hljóðs.“ Ég sagði honum að vídjóið hefði ekki farið í gang og hann sæji það á eftir í seinna rennslinu þegar ég er búinn að laga smá. „Það verður ekkert seinna rennsli“ sagði hann. „Þú laugst að mér! Þú sagðir að það yrði nauðsynlegur ljósaþáttur, og hvað er þetta, þetta er enginn mússíkk bara eitthvað (með fyrirlitningu í röddinni): „bink, bonk, bink, bonk“ (uh, já!) þú leggur ofuráherslu á tæknina og svo er þetta bara eitthvað rugl, fullt af fólki hérna og fínir hljóðfæraleikarar, þetta er ekki einu sinni redúksjónismi, þetta er ekki nógu lítið til að vera redúksjónismi, þetta er bara tilgerðarlegt!“ Grýttur jarðvegur þar, því óneitanlega er manni alltaf hugsað til jesú og sögunnar um sáðmanninn, svona til huggunnar á öngstundum.