July 26

eða semsagt
Posted on July 26th, 2008 at 9:35 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008
Davíð Franzson fékk svokallaðan Stipendiumpreis í Darmstadt. Af 190 þáttakenndum fá venjulega fjórir svokallaðan stipendiumpreis sem þýðir að þeir fá ókeypis í sumarbúðirnar næst, verða sennilega með verk pantað á sérstökum tónleikum og ef maður skoðar fyrri ár má segja að hann sé kominn í fjögra liða úrslit um að fá hinn eftirsótta Kranichsteinpreis, aðalverðlaun hátíðarinnar en þetta myndi Davíð líklega véfengja sjálfur eða draga einhvern veginn úr af Lúterskri hógværð.

Posted on July 26th, 2008 at 6:16 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008

Eftir tónleikana þar sem Davíð var með verk spjallaði ég við Gerard nokkurn Stäbler (vatnsglas-rödd, palli!?) sem átti verk sem baulað var á deginum áður. Ég var nú samt talsvert hrifinn af því verki ásamt öðrum verkum sem ég hef heyrt eftir hann. Hann ákvað að bjóða viðstöddum í mat og ræða listir og menningu. Það var áhugaverð umræða sem skapaðist um nýnasisma í Þýzkalandi og fótboltabullur og lustir og menningu í Þýzkalandi, Vesturheimi og Austurheimi, en bæði í Vesturheimi og Austurheimi hefur Stäbler dvalið langdvölum eða stuttdvölum.
Ég ynnti hann eftir mismunandi geirum og kimum í þýzkri nútímatónlist og hvort sumir kimar væru víðsfjarri í Darmstadtinu. Hann jánkaði því og sagði að tónlistin sín væri til dæmis ekkert sérstaklega “Darmstadt” og skil ég hvað hann meinar en var áhugavert í ljósi þess að hann átti þó tvö verk á hátíðinni. Hann benti á verk Robert Redgate frá deginum áður sem dæmi um eitthvað sem væri mjög Darmstadt (það vita allir hvað verið er að tala um, með fullri virðingu fyrir Robert Redgate og reyndar frábæru verki). Hann sagði að ákveðnar ættir af öfgakenndri performans art tónlist sem algengar væru í þýzkalandi væru víðs fjarri á Darmstadt en einnig ræddum við hina lágværu Wandelweiser og redúksjónismann sem má þó segja að hafi haft óbeinan fulltrúa, Klaus Lang. Stäblerinn sagði að „félagi“ sinn (elskhugi af ónefndu kyni) væri nú í þessu wandelweiser rugli en hann hafði flóknar tilfinningar gagnvart redúksjónismanum. Honum fannst þeir eiga til að taka niður fyrir sig í hljóðfæraleikurum og slíku og sagði mjög mikilvægt að þegar það eru fáar nótur þá verði þær náttúrulega að hljóma ótrúlega vel. Hann hafði líka efasemdir um ákveðna hugleiðslu pælingu sem ýjað er að í svona tónlist og þá um hvort nægilega mikil hugleiðsla fælist í svona tónlist miðað við þá sem taka hugleiðslu alvarlega og hversu vel tónlistin næði slíkum tilgangi ef það er þá tilgangur hennar (sem ég er ekki beinlínis viss um, en hann stendur þó óneitanlega nær þessu rugli öllu saman).
En þetta var einstaklega skemmtilegt spjall og hann hafði frá mörgu skemmtilegu að segja, hann hefur nokkrum sinnum hugsað sér að koma til Íslands í frí og ég sagðist mundu taka vel á móti honum ef svo færi.

Posted on July 26th, 2008 at 6:15 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008

Síðustu tónleikarnir sem ég sá voru Stipendiumpreistager tónleikarnir (vonandi verða sambærilegir tónleikar á næsta ári, þá með verki eftir Davíðinn). Á tónleikunum voru 5 verk eftir 4 tónskáld, ungir hljóðfæraleikarar (sigurvegarar frá því síðast á hverju sviði fyrir sig) léku. 3 verk voru góð en 2 léleg. Á þessum tónleikum má líka segja að sum verk hafi haft „sigurvegara brag“ yfir sér, þ.e. samin til að vinna keppni einhvers konar einkum vondu verkin tvö sem annað var með tilgerðarlegum hrópum og köllum og hitt sem var með svokölluðu Vortex formi (spyrjið ef þið skiljið ekki, en þið skiljið). Tölum nú um góðu verkin. Fyrst var verk eftir hérna æji hún heitir eitthvað Alexandri Poppulo Socratesar Afródíta eitthvað sem hefur víst verið að strauja festivölinn með konseptúal verkum. Þetta verk hét Yarn og voru strengjahljóðfæri fest saman með streng sem dreginn var létt og lágvært þvers og kruss í gegnum hljóðfærin og langur tími leið þar til „eitthvað fór að gerast“ og þrátt fyrir lítil hljóð las maður vel formið og hvað væri að fara að gerast og það var allt eitthvern veginn rosalega passlegt fannst mér og passlega lítið gerðist og engum óþarfa var við bætt í þessu nánast teatríska verki. Mér fannst þetta mjög fagurt og tilgerðin bara heillandi því þetta var gert af sannfæringu hljóðfæraleikara.
Svo kom helvítis danadjöfullinn Simon Steen Andersen en hann átti tvö verk á tónleikunum, annars vegar sólófiðlu stykki sem leikið var af vinkonu Ingós af leikni og natni. Hart stykki með endurtekningum sem hiksta og fokka í manni, einfaldur auðþekkjanlegur efniviður, bara gliss í tvær áttir leiknar af áfergju og ákafa, mjög flott. Síðara verkið hans og síðasta verk tónleikana var bara í alla staði ótrúlegt. Ég á eiginlega ekki til orð. Ég var bara í sjokki eftir það. Í því var slagverk með miklu rugli, saxófónn, selló og eitthvað fleira bíddu… og 3 megafónar. Megafónunum var stjórnað af sér fólki sem lagði hljóðnema fyrst upp að hljóðfærum og gengu svo af fagurri tilgerð á annan stað og fóru í fídbakk og differens tóna orgíu og settu svo megaf´ónanna saman í keðju þar sem hver magnaði upp hinn. Hljóðfærapartarnir voru ótrúlegir, úr heildin urðu svaka sánd sem mynduðu hálfendurteknar hjakk kenndar textúrur með aggressífum pörtum. Það er mjög erfitt að lýsa verkinu en það var í alla staði gríðarlegt og ég get lítið útskýrt gífurleika þess hér og nú.
Nú vil ég ekki vera að draga fólk í dilka en geri það samt en það má sjá mynstur þó ekki mjög einföld í ákveðnum tendensum ungu kynslóðarinnar, þá einkum Alessöndru, Simon, Davíði og Annesley og jafnvel Robin Hoffmann um einhvern konseptúalisma í breiðustu merkingu þess orðs. Ég á erfitt með að fullyrða um það hvað ég sé sameiginlegt í verkum þessara tónskálda en það er eitthvað annað upp á pallborðinu en hjá þeim mun eldri tónskáldum. Það er kannski andstaða við hefðbundið músíkalskt narratíf og gestúrur sem er sameiginlegt einkenni, oft eitthvað sem er ekki „háfleygt“ eða „upphafið“ á yfirborðinu eða í hefðbundnum skilningi. Erfitt og hættulegt er að fara út í svona skilgreiningar, en það er kannski frekar skilrúmið sem þessi tónskáld hafa við hefðbundnar hugmyndir um tónlistarlegar „hákveður.“ Ég skal ekki segja meira um þetta hér og nú.
Annað en það að ég var mjög ánægður að heyra að Simon hefði unnið Kranichsteininn, ásamt gaurunum tveim sem voru með vondu verkin (þ.e. 3 deildu verðlaununum) en hin gríska var skilin útundan eitthverra hluta vegna. Venjulega finnst mér svoldið asnalegar svona keppnir og í eðli sínu ekki líklegar til að heiðra neitt annað en það sem þegar hefur verið samþykkt, enda ekki hægt að keppa nema fólk sé örugglega að spila nákvæmlega sömu íþrótt. Það gefur mér þó mikla trú að Simon hafi fengið verðlaun og að Davíð hafi fengið Stipendiumpreis, því að í báðum tilfellum er um að ræða mjög einkennilega tónlist sem erfitt er að setja á hinar hefðbundnu mælistikur en eru í raun frumleg, því þó Davíð og Simon hafi lært hjá „rétta“ fólkinu er ekki auðséð að þeir séu að semja „réttu“ tónlistina.

Posted on July 26th, 2008 at 6:13 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008
Seinni vikuna var talsvert farið að krauma í kleinuhringnum. Ákveðnir aðilar voru í ruglinu með að reyna að kynna sig fyrir fólki sem er í ákveðnum dómnefndum og slíku. Einnig var tekið upp á því að byrja að baula á tónleikum og eftir það var baulað á öllum tónleikum á eftir öðru hverju verki (nema hjá Kurtag sem átti það þó skilið). Einnig var farið að heyrast raddir um þýzkar bloggsíður sem ásökuðu marga um elítisma, einkum Ferneyhough og nemendur og ráðist var á persónulegum og fagurfræðilegum árásum. Á Stúdíokonsertunum átti ein bresk stelpa verk sem að er í raun ekkert annað en kafli úr hefðbundnum enskum söngleik. Þetta olli reiði meðal hljóðfæraleikara en tveir hættu við að spila í verkinu og annar sagði „ég kom ekki í Darmstadt til þess að spila eitthvað svona“, en það er gaman þegar fólk hefur gert sér svo skýrt mótaða hugmynd um „Darmstadt-framúrstefnu“ að það verður hreinlega móðgað ef eitthvað er ekki á rétta lund (reyndar gat þetta ekki hugsanlega verið nálægt neinu sem talist gæti rétt í Darmstadt og fær því rokkprik þó það fengi tippahauskúpu í öðru samhengi).
Síðan voru pallborðs umræður um nótnaritun þar sem að Baltakas réðst á post-ferneyhough-rúnkisma í nótnaskrift sem honum finnst víða komið út í vitleysu hjá nemendum hátíðarinnar. Ferneyhough tók þetta sjálfur mjög harkalega til sín sem beina gagnrýni og sagðist ekki bera ábyrgð á svona og sæktist síður en svo í að hafa nemendur sem herma eftir sér. Baltakas tók dæmi sem mér fannst mjög leiðinleg um „einfalda og skýra nóteringu“ og vakti til umræðu á ábyrgð gagnvart hljóðfæraleikurum, en mér fannst þeir punktar frekar lélegir og leiðinlegir þó gagnrýni á endalausar „hreiðursólur“ og „órökréttir taktboðar“ sem eftirhermusýndarmennsku rúnk séu sjálfsagðar. Ferneyhough sagði: “I feel a bit attacked here” og stríð var hafið. Restin af pallborðsumræðunum varð því eins og nauta-at, nautið ræðst að áfergju í upphafi, en það vita allir að það er að fara að deyja og áheyrendur njóta þess að sjá líftóruna kreista úr því. Ferneyhough svaraði fyrir sig af mikilli orðsnilld og mjög góðum punktum þó svo að margir áheyrendur væru að missa sig í halelújah og ramtsjaja. Ferneyhough talaði um nótnaskrift sem óaðskiljanlega menningu, bakgrunni/hefð og eðli tónlistarinnar og að nótasjón væri langt frá því að vera eitthvert tónlistarlegt esperanto þar sem það væri alltaf ein einfaldasta leiðin til að nótera allt. Hann tók sem dæmi misheppnaðar „einfaldanir“ á skorum Sylvano Busotti sem hefðu ekki gert neitt annað en að eyðileggja þá einkennilegu alkemíu sem einkennir verk hans. Á hinn boginn nefndi hann „einfaldar nótur“ með „spíritúal“ skilaboðum í orðum sem hann hefði séð sem honum fannst meira en lítið einkennilegar og tilgerðarlegar á vondan hátt. Þetta var áhugavert og skemmtilegat að sjá og fernellinn var sem fyrr hafsjór af upplýsingum og skemmtilegum hugmyndum um tónlistarsögulega samanburði. Marco Stroppa sat allan tímann sem illa gerður hlutur milli tveggja elda. Haft var eftir honum eftir á að hann vildi aldrei aftur stíga í pontu með Ferneyhough sökum orðflaums sem hann ætti erfitt með að penetrara í gegnum. Glassúrinn var farinn að bráðna ofan af kleinuhringnum.

Posted on July 26th, 2008 at 6:11 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008

Í Darmstadt er mikið af þáttakenndum frá Austurlöndum. Þeir virðast þó vera pínu út af fyrir sig í hverju landi fyrir sig og eru mjög misgóðir í ensku og þýzku. Ég gerði það að gamni mínu viljandi og óviljandi að reyna að kynnast og lesa inn í þessa hópa, einkum, kínverski hópurinn og kóreski hópurinn.
Þess má geta að það var ekki hægt að komast hjá því að skynja almenna vanvirðingu og áhugaleysi í garð asísku liðanna frá Evrópsku og Amerísku liðunum. Á duo konflikt tónleikana (sem innihéldu japanskan og kóreskan aðila og aðallega asíska tónlist) mættu nánast engir fölhvítir og þeir sem mættu byrjuðu baulið. Einnig heyrði ég margar umræður þar sem talað var pent um (en þó meinað) hvers vegna í andskotanum mikið af asíska fólkinu væri hérna, sem skildi margt hvorki almennilega ensku né þýzku og virtist ekki „taka tónlist alvarlega“ eða vera bara í allt öðrum pælingum fagurfræðilega.
Eftir skemmtilega setustund með kínverska liðinu þar sem ég sá hljóðfærafræðibók á kínversku með vestrænum hljóðfærum (klassík og rokk) og kínsverskum hljóðfærum í sömu bókinni opnaðist fyrir mér ný vídd. Leikin voru fyrir mig ýmiss kínversk verk eftir ungtónskáld sem áttu flest fullt af verkum í fallega innbundnum möppum með fallegum kínverskum táknum. Þau áttu flest margra þátta verk eða röð af svítum um vorið og haustið og jörð og vatn og ég veit ekki hvað og hvað. Svo heyrði ég leikið á píanó mjög undarlega tónlist sem ég verð að segja að er á allt öðrum stað í menningunni. Það var eins og notuð væru mótíf úr „nútímatónlist“, „rómantískri tónlist“ og „kínverskri tónlist“ en sett saman á einhvern undarlegan hátt þar sem ég fékk á tilfinninguna að það sem ég þekkti í tónlistinni væru bara orð, tökuorð sem fengið hefðu á sig nýja mynd og merkingu í undirliggjandi tungumáli sem ég hefði engan skilning á. Ég áttaði mig á því að ég gat ekki auðveldlega dæmt, þetta er nú bara eitthvað rugl, vegna þess að eftir að hafa heyrt nokkur svipuð verk fattaði ég að undir niðri var einhver syntax eða regla eða merkingarfræði sem ég skildi bara ekki. Því þó svo að orðin séu skiljanleg og allt er inn á ramma píanóss og vestrænnar nótnaskriftar, er eitthvað undirniðri í tónlistinni sem er í raun gjörsamlega annað. Fágunin er á háu stigi en syntaxin og fagurfræðin er svo ólík að ef maður reynir að heyra þetta sem vestræna nútímatónlist hljómar það bara eins og eitthvað bull, en er í raun allt annað.
Kóresku liðin töluðu um merkingu á hátt sem ég skildi ekki. „Hvað þýðir þetta verk?“, „hvað þýðir þetta hljóð?“ spurningar sem ég skil ekki hvað liggur að baki. Eftir að hafa borðað sama kvöldmatinn í viku spurðu kínverjarnir mig hvort svipaður matur væri étinn á Íslandi og jánkaði ég því. Það fannst þeim athyglisvert. Kínverjarnir undruðu sig (án gagnrýni) á einhæfninni og veltu líka fyrir sér almennri einhæfni og grámyglu í litavali á byggingum og slíku í Þýskalandi. Einn kínverji sem var að læra í þýskalandi var mjög hrifinn af tækninni hjá þýskum tónskáldum en fannst tónlistin oft ekki alveg nógu falleg, hún væri jú falleg á sinn hátt og flott óhljóð og svona, en hann vildi meiri „fegurð.“ Asísku liðin ferðuðust oft í liðum, og höfðu oft einn í liðinu sem var meiri tungumálamaður en flestir og þýddu fyrir restina. Merkilegast fannst mér þó „skorturinn á alvarleika“ hjá einkum kínverjunum. Þeir virtust ekki hafa neina feimni í því að sýna bækur sínar af 50 píanó etýðum eða „chinese art song“ lögum og töluðu ekki um tónsmíðar sínar á upphafinn hátt eða í blindri þrá eftir elítísku samþykki heldur virtust hafa jarðbundna nálgun að sköpuninni sem var ekki þrungin rómantískum kvíða og þunga. Athyglisvert og kennir manni hversu lítið maður skilur í raun.