Posted on September 25th, 2008 at 6:10 PM by aki

Written by Þráinn Hjálmarsson
fimmtudagur, 25 september 2008
Tónleikar í Utrecht miðvikudaginn 24. september 2008 – Performerar voru Rosa ensemble – sjá meira http://www.rosaensemble.nl/

Rosa ensemble á að kallast Bang on a can þeirra Hollendinga, svona meira rokkhljómsveit en þau kunna samt alveg pappírsmúsík, sem sýndi sig í frábærum flutningi á tónleikunum.

Fyrsta verk kvöldsins hét Touch yourself prt. 1 eftir Bart de Vrees og flutt af honum sjálfum, hann er slagverksleikari en sýndi skemmtilega takta í þessu sjónræna rafverki, þar sem hann sýndi viðbrögð sem gætu kallast vígaleg sem varpað var á hansagardínur, sumsé hann skapaði einhvers konar fjórða vegg með myndavél og hansagardínunni og í lokin eftir að hafa verið að berja sig í andlitið um stund, rauf hann þennan pseudo-vegg sem hann skapaði, einkar fínt verk. Það fylgdi í umræðu um verkið að það hafi verið í Gadeamus keppninni núna í ár.

Verðlaunahafi Typpahauskúpunnar voru verk Wilbert Bulsink Counterpoints f. píanó, hann hreppti hnossið, þótti skara fram úr í vondu, alls engin meðalmennska. Vegna þess að þetta var spuni var þetta gífurlega laust í sér og ekkert í boði, þetta var kannski ekki hans kvöld. Sýndi fram á hversu glatað píanóið er, handónýtt hljóðfæri. En ekki örvænta, Wilbert þessi átti líka flott slagverksstykki sem var þá skrifað út og heitir Juggling/Jong Leren (2008), pólírytmar, alveg 4:5 og 5:6 og svo var statíkin falleg.

Saxófónleikari Rosa Ensemblu, Annelies Vrieswijk lék Sequenzu IXb eftir Berio (f. Alt-saxófón) með glæsibrag, rosalega vandaður og flottur flutningur sem að skilur mig úti í kuldanum, þar sem ég get ómögulega myndað mér skoðun á þessu stykki og nokkuð mikið af Berio dótinu (þá aðallega hinar sequenzurnar, chemins II og Points on a curve to find).

Peter Jessen lék þá Tom Johnson verkið Failing: Failing: a very difficult piece for solo string bass. Það verk er smá passasamt þar sem það þrífst á skemmtilegum flytjanda og ekki var Peter leiðinlegur, hann lék þetta vel og jafnvel sannfærandi, ég er ekki dómbær á það hvort hann hafi verið sannfærandi þar sem búið var að þýða textann í verkinu og fluttur á Hollensku. Það hlóu allir á skemmtilegu stöðunum, Ég er nú meiri helvítis útlendingurinn hugsaði ég. Senda þetta úr landi!

Til að tæma listann þá var Arthur Wagenaar (mögulegt ættmenni Diderik W.?) með rafverk þar sem ég sónaðist út og man ekki neitt eftir, jafnvel einhverjar tilraunir með tónaljóð(???) og að lokum var bandið Sleep Gunner með frábært atriði þar sem þeir léku hawai/kántrí músík, gítardúó þar sem annar var hollendingur og hinn kani, einkar skemmtilegt gítarrúnk, þó var erfitt að gíra niður eftir að hafa flogið hátt með Berio og TJ en það kom fyrir rest.

Rosa Ensemble er áhugaverð, að geta boðið uppá svona fjölbreytta tónleika og virkilega gott andrúmsloft, props fyrir Rosa Ensemblunni.

-ÞH