January 27

Sláturdúndur
Posted on January 27th, 2009 at 9:12 PM by aki

Written by Áki Ásgeirsson
þriðjudagur, 27 janúar 2009

dundur

Hrá sláturverk. Ósoðin, lauflétt og níðþung músík.

Næstkomandi föstudagskvöld 30.janúar 2009 halda S.L.Á.T.U.R.-samtökin tónleika á Kaffihúsinu Hljómalind kl.20.00. Þessir tónleikar eru þeir fyrstu í röð viðburða undir heitinu sláturdúndur. Þetta er fyrsta sláturdúndur sinnar tegundar en verður hér eftir haldið mánaðarlega, seinasta föstudag í mánuði.

Á sláturdúndri eru einungis frumflutt ný listrænt ágeng tónverk. Listrænt ágeng tónskáld umhverfis Reykjavík koma því saman ásamt listrænt ágengum hljóðfæraleikurum sem í sumum tilfellum eru tónskáldin sjálf. Í þessari mánaðarlegu seríu er ekki gert út á umgjörð og formlegheit heldur listrænt ágengi í sinni hreinustu mynd.

S.L.Á.T.U.R. eru Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík. Markmið samtakanna er að stuðla að listrænu ágengi umhverfis Reykjavík og víðar. Samtökin standa reglulega fyrir ýmsum viðburðum svo sem sumarsólstöðutónleikum, nýjárstónleikum, keppninni um keppinn, utanlandsferðum sem kynna listrænt ágengi og nú sláturdúndur. Einnig er að styttast í útgáfu af kynningargeisladisk samtakanna. Þá munu samtökin halda tónlistarhátíð síðsumars.