September 29
Opnunarhátíð og tónleikar með FengjastrútiÁ fyrsta degi Sláturtíðar verða tveir viðburðir, opnunarhátíð um eftirmiðdaginn og svo tónleikar um kvöldið.
Opnunarhátíð Sláturtíðar
Miðvikudagur 29. september kl 17:00, Njálsgötu 14
Tónlistarhátíðin Sláturtíð hefst með hátíðlegri athöfn í höfuðstöðvum S.L.Á.T.U.R. í húsinu við Njálsgötu 14, miðvikudaginn 29. september. Þar verður dagskrá hátíðarinnar kynnt og auk þess verða óvænt atriði og léttar veitingar. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Fengjastrútur – tónleikar
Miðvikudagur 29. september kl 20:00, Útgerðin, Grandagarði 16
Fyrstu tónleikar Sláturtíðar verða fluttir af Fengjastrúti. Fengjastrútur hefur komið fram á tónlistarhátíðinni UNM við góðan orðstír og þykir í raun einstök hljómsveit á alþjóðlegan mælikvarða. Verkin sem hljómsveitin flytur eru eftir ýmsa S.L.Á.T.U.R. meðlimi sem hafa farið ótroðnar slóðir í nálgun sinni á efnistökum, aðferðum og innihaldi tónlistar sinnar. Tónleikarnir verða í Útgerðinni, Grandagarði 16, á annari hæð. Aðgangseyrir er 1500 KR en hægt er að fá allt að 100% afslátt með því að mæta á alla tónleika Sláturtíðar.
* Hallvarður Ásgeirsson, Miniature #1, (frumflutningur)
* Ingi Garðar Erlendsson, Karaoke 1
* Ingi Garðar Erlendsson, Karaoke 2
* Jesper Pedersen, Flipp A (frumflutningur)
* Magnús Jensson, Lýsi (2010)
* Páll Ivan Pálsson, Snjóholt (frumflutningur)
* Þorkell Atlason, Consumption 1 – súpa og brauð (frumflutningur)
* Þráinn Hjálmarsson, Skúlptúr #2 (frumflutningur)
Fengjastrútur er tónlistarhópur sem einbeitir sér að því að flytja verk sem leitast við á einhvern hátt að endurskilgreina tónlistarflutning. Því spila meðlimir bæði á eigin hljóðfæri og ýmislegt annað, eru tilbúninir til líkamlegra aflrauna og leikrænna tilbrigða ef þess þarf. Hópurinn skilgreinir fagmennsku sína og markmið þannig að best sé að teikna sem skýrast þá hugmynd sem er upp á borðinu og fara inn í verkin í staðinn fyrir að láta sníða verkin fyrir hópinn. Hann samanstendur af 8 fjölhæfum hljóðfæraleikurum sem eiga það sameiginlegt að hafa starfað í fleiri en einum tónlistargeira (jafnvel tveim, þrem, fjórum) og koma með það besta úr þeirri margvíslegu reynslu til þess að birta einstakar tónsmíðalegar hugmyndir.