Posted on April 13th, 2011 at 4:15 PM by aki

Markmið S.L.Á.T.U.R. er að halda áfram að kynda undir nýmæli í tónmenningu Reykjavíkur og nágrennis. Samtökin hafa verið leiðandi í nýsköpun tónlistar allt frá upphafi og verið sameiginlegur vettvangur frumlegustu tónskálda Íslands. Starfsemin er fjölþætt og fyrir utan tónlistarviðburði halda samtökin uppi ýmissi reglubundinni starfsemi. S.L.Á.T.U.R. var stofnað 2005 og var fyrst með félagsheimili við Hverfisgötu í Reykjavík og síðar við Njálsgötu. Nú eru samtökin án heimilis en nýta ýmis rými til starfseminnar. SLÁTUR samtökin munu halda áfram sínum reglubundnu viðburðum auk frekari markaðssetningu á listrænt ágengri tónlist í formi kynningardiska, internetvæðingar tónskálda og samvinnu við álíka félög og stofnanir erlendis.

Reglubundnir viðburðir SLÁTUR samtakanna:

Nýárstónleikar í Janúarbyrjun – Glæsilegir stórtónleikar þar sem áhersla er lögð á sérstakar hljóðfærasamsetningar.
Skorskoðun, vikulega í félagsheimili SLÁTUR – Almenningi gefinn kostur á að kynnast listrænt ágengri tónlist undir leiðsögn sérfræðinga.
Hljóðfæraþróunarstofa, hálfsmánaðarlega – Félagar í SLÁTUR vinna að nýsmíði hljóðfæra. Þar fer m.a. fram áframhaldandi vinna við þróun nýs LANGSPILS, rafmagnaðri útgáfu hins forna íslenska hljóðfæris.
Sláturdúndur, síðasta föstudag hvers mánaðar – Óformlegir tónleikar þar sem félagar SLÁTUR flytja glænýja tónlist eða hluta tónverka sem enn eru í vinnslu.
Netvinnsla, – Uppbygging vefsíðu SLÁTUR samtakanna, www.slátur.is. Síðan inniheldur nú þegar mikið magn skrifa um nýstárlega tónlist og upplýsingar um starfsemi félagsins.
Skrásetning tónverka, – Félagar í SLÁTUR hafa samið hundruð tónverka sem erfitt er að nálgast. Mörg þessara verka eru ekki skrifuð á pappír heldur eru tölvuforrit eða aðrir hlutir sem óþjálir eru í flokkun og varðveislu en af þeim sökum hefur Íslensk Tónverkamiðstöð átt í vandræðum með að hýsa þessi tónverk. Til að þessi listverðmæti glatist ekki er það von samtakanna að framtíðarlausn felist í stofnun Tónverkasafns SLÁTUR.
Bókasafn SLÁTUR, – Nýskráning bóka, útlán og innkaup. Bókasafn SLÁTUR er opið meðlimum félagsins og hafa fjölmargir nýtt sér þær viðamiklu upplýsingar framandi tónlist sem þar er að finna. Bækurnar eru ekki til útláns nema viðkomandi lánþegi hafi “laggt inn” bók í bókasafnið. Þannig er bókasafnið sameiginlegur þekkingarbrunnur meðlima SLÁTUR. Bókakosturinn stækkar jafnt og þétt og má sjá sýnishorn af eintökum safnsins á www.slátur.is. Fjölmargar bækur aðrar bíða skrásetningar.
Námskeið, fimm vikur að vori og fimm að hausti – Tónsmíðanámskeið opið almenningi. Nýjar aðferðir í tónsköpun kynntar og fjallað um helstu frumkvöðla listrænt ágengrar tónlistar. Áhersla er lögð á nútímatónlist, þ.e. tónlist allra síðustu ára og þáttakendum gefinn kostur á að njóta leiðsagnar lærðra og reyndra kennara. Tónlist fortíðarinnar er auðvelt að nálgast í tónlistarskólum landsins en nýjasta nútímatónlistin er hvergi annarstaðar kennd.
Tónsmíðavika, ein vika um sumarsólstöður – Þáttakendur sem valdir eru úr hópi umsækjenda fara í viku út fyrir borgina þar sem þeir semja tónlist allan daginn. Á kvöldin er tónlistin svo æfð af atvinnuhljóðfæraleikurum. Í lok vikunnar verða haldnir tónleikar með afrakstrinum.
Menningarnótt, laugardagur í ágúst – Opið hús í félagsheimili SLÁTUR. Auk þess hefur SLÁTUR gjarnan skipulaggt tónleika eða viðburð í samhengi við þema menningarnætur.
Keppnin um Keppinn, á Sláturtíð eða á Menningarnótt. Árið 2008 fór fram marsakeppni SLÁTUR þar sem keppt var í gerð skrúðgöngutónlistar. Árið 2009 er keppni í gerð nýrra íþrótta og 2010 var haldin danslagakeppni. Farandbikar SLÁTUR, Keppurinn, sem er steyptur sláturkeppur úr gegnheilu járni var veittur þeim Áka Ásgeirssyni fyrir besta marsinn, Guðmundi Steini Gunnrassyni fyrir bestu íþróttina og Hafdísi Bjarnadóttur fyrir besta danslagið.
Sláturtíð, alþjóðleg tónlistarhátíð í október – Tónlistarhátíð SLÁTUR. Sláturtíð er uppskeruhátíð samtakanna. Þar verður listrænt ágeng tónlist eftir SLÁTUR meðlimi sem og erlenda gesti leikin af ýmsum hljóðfæraleikurum og tónlistarhópum.

slatur