Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
sunnudagur, 13 júlí 2008
Lítið hefur borið á blogginu síðan á miðvikudag en fimmtudag og föstudag fór ég nefnilega í undirbúning á smá flutningi sem fór fram í gær. Áður nefndur Manos Tsangaris sér um sérstök „eftirpartý“ með tónlistaratriðum þar sem þemað er notkun hljóðs og ljósa í samtvinningu. Þáttakenndum var velkomið að koma og vera með stutt atriði, annað hvort búin til fyrir þetta eða öðruvísi. Mér fannst þetta ljósasjó vera gott tækifæri til að illúminera og ákvað því að slá til og bjó skyndilega til styttingu og reduksjóna á öðru verki. Ég hef búið til rugl nýlega í processing og ég hafði hugsað mér að nota einfalt myndmál til þess að vera hljóðfæri innan í tónlistinni, hegða sér eins og tromman í Gagaku tónlist, merkja einingar og þannig myndi visjúallinn auðvelda manni að fatta ákveðnar tengingar. Ég náði að tengja þetta og allt er vel. Ég fann hljóðfæraleikara í þetta sem voru á námskeiðinu með því að tala við kennara sem kenndu á hljóðfærin sem ég vildi fá og tróð mér svo inn í masterklass næsta dag til að næla í einn af nemendum þeirra. Hljóðfæraskipanin varð því trompet (með harmónmjút), altósax, harmóníkka, fiðla og víóla. Verkið er semsagt stytting, einföldun og endurútsetning á boltaverki sem heitir Staðlafell og var frumflutt síðasta haust á Thingamajigs hátíðinni í flóanum, en það verk var fyrir slagverk og „fundna hluti.“ Ég var með mína tölvu, dabbi lánaði mér sína en ég þurfti þriðju en mátti nota tölvu Manos Tsangaris. Svo kom á daginn að það var pc tölva og rétt fyrir einu æfinguna var allt komið í köku og nánast ekkert virtist vera að virka. Davíð var mér þó innan handar og hjálpaði mér fram úr undarlegum ógæfumerkjum.
Æfingin varð því að almennri útskýringu og hljóðfæraleikararnir spiluðu bara sömu röddina í æfingarskyni og svo sleppti ég þeim og sagði að þetta yrði allt í lagi á eftir, kvíðið engu! Ég varð því að skrópa á tónleika kvöldsins til að finna út úr tölvumálum og það hafðist, á endanum varð allt smurt og ég eyddi miklum tíma í að láta skjávarpadæmið líta rétt út. Það semsagt lýsti á tölvurnar þrjár þar sem hljóðfæraleikararnir áttu að vera. Skjávarpinn var upp á palli og úr fókus, lýsti mjög stórt, lengst í burtu út í horn og niðrá gólf, svo setti ég pappír á ena linsunnar frá tveim hliðum til að mýkja línurnar af vörpuninni. Allt fór í gang samtímis og ekkert rugl. Þar sem annað atriði var á undan varð ég að slökkva á tölvunum því hitt verkið átti að vera í myrkri. Verkin átti bæði að flytja tvisvar. Svo fóru hljóðfæraleikarnir að mæta og rétt fyrir okkar flutning ætluðum við svona að fara yfir málin meðan áheyrendur voru í öðru herbergi að drekka bjór en þá fóru osc vandamál að gera vart við sig. Ekkert var að virka og Davíð stakk upp á því eina rétta í stöðunni, tölvunum verður startað samtímis með speisbarnum! Áheyrendur komu inn, þetta var gert. Við tölvu númer þrjú var bara eitt hljóðfæri, víóla (en ekki tvö eins og á hinum) og rétt áður en verkið byrjaði hafði víóluleikarinn spurt mig, hvað ef þetta fer ekki í gang hjá mér, á ég þá bara að feika það? Já sagði ég af vantrú um að slíkt myndi gerast auk þess sem tafir höfðu þegar orðið á dagskrá út af tæknivandamálum. Verkið hófst og allt fór í gang nema tölvan hennar, svo hún varð að feika, en einmitt í hennar tölvu var prósessing parturinn, þannig að skjávarpinn lýsti bara stillmynd allan tímann. Að öðru leyti var bara rennt í gegnum þetta í þessari losaralegu útgáfu (í mín eyru, þar sem míkrótími er aðalatriðið í verkinu frá mínum bæjardyrum). Trompet, harmóníkka og saxófónn, eru fremstir í hverri hendingu og unnu vel, og því náðu helstu útlínur verksins að koma fram. Fyrir einhvern sem er að heyra þetta í fyrsta skipti er kannski ekki mikill munur (þó eitt hljóðfæri sé í ruglinu) og flutningurinn varð aðgengilegri en hann átti að vera sökum músíseringar þessara miklu hljóðfæraleikara. Því bara léttara fyrir vikið. Í endan kom hali á sóló fiðlu sem ég hafði ætlað að klippa út, en sú breyting virtist ekki hafa seifast þannig að fiðlan hélt ein áfram í tvær mínútur eftir að hitt var hætt. Manos varð brjálaður, þar sem þetta fór yfir ætlunartíma og lét kveikja ljósin og ég reyndi að gefa henni merki um að hætta bara en dáleiðingarkraftur skjásins er svo þungur að það náðist ekki. Ég klappaði því mitt eigið verk niður í þögn stuttu áður en halinn er alveg búinn.
Ég fór beint í skjávarpatölvuna til að fatta af hverju dæmið hefði ekki farið í gang og einhver stelpa kom upp að mér og spurði hvot ég gæti útskýrt í stuttu máli hvað í helvítinu þetta er? Hver er pælingin? Ég svaraði ekki þar sem U.N.M. vinir frá Noregi og Finnlandi voru komnir að þakka mér fyrir og kíkja í tölvuna, enda eru þeir farnir að þekkja þessa vitleysu. Manos Tsangaris dró mig svo til hliðar og snappaði á mig. „Hvar var hið nauðsynlega samspil ljóss og hljóðs.“ Ég sagði honum að vídjóið hefði ekki farið í gang og hann sæji það á eftir í seinna rennslinu þegar ég er búinn að laga smá. „Það verður ekkert seinna rennsli“ sagði hann. „Þú laugst að mér! Þú sagðir að það yrði nauðsynlegur ljósaþáttur, og hvað er þetta, þetta er enginn mússíkk bara eitthvað (með fyrirlitningu í röddinni): „bink, bonk, bink, bonk“ (uh, já!) þú leggur ofuráherslu á tæknina og svo er þetta bara eitthvað rugl, fullt af fólki hérna og fínir hljóðfæraleikarar, þetta er ekki einu sinni redúksjónismi, þetta er ekki nógu lítið til að vera redúksjónismi, þetta er bara tilgerðarlegt!“ Grýttur jarðvegur þar, því óneitanlega er manni alltaf hugsað til jesú og sögunnar um sáðmanninn, svona til huggunnar á öngstundum.