Posted on July 13th, 2008 at 6:29 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
sunnudagur, 13 júlí 2008

Ég mætti mjög lítið á fyrirlestra á fimmtudeginum, enda mikið á þýsku og minna spennandi hlutir og var þess í stað í tölvunni að undirbúa gjörning föstudagsins. Þó sleppti ég ekki tónleikum og fór í Pálskirkju og heyrði þar orgeltónlist. Það voru fínir tónleikar. Fyrst var verk eftir einhvern Hermann Markus Pressl sem mig grunar að sé bara eitthver outsider, eða svona jaðarmenni einhvers konar. Verkið var alla vega afar sérkennilegt og sérviskulegt og pínu lélegt á heillandi hátt. Þrír kaflar, bara endurtekið eitthvað rugl, ekki nógu stutt rugl til að vera naumhyggjukennt og svona semí tónal með vandræðagangi í raddfærslu sem var mjög gegnsær. Eiginlega mjög heillandi. Næst kom verk eftir Klaus Lang sem er annar af yngstu meisturum hátíðarinnar, átti kótó og blokkflautuverk sem ég skrifaði áður um. Hér var heldur ekkert slor á ferðinni. Bara puuuuu skrýtið lélegt óstabílt og veiklulegt hljóð úr orgelinu lengi, eitthvað smá on off, breytingar. Svo kom þrisvar sama nótan sungin mjög látlaust af sópran söngkonu í miðjunni og svo hélt orgelsuðið áfram og búið. Æðislegt! Næst var verk eftir Feldmanninn sjálfan. Klassík. En ólíkt öðrum klassískum verkum á hátíðinni þá er þetta með því lélegra af verkaskrá tónskáldsins. En merkilega lélegt ef maður þekkir vel hans mússík, vegna þess að það tengir hið misskilda mið-tímabil (8.áratug) feldmanns við síð-Feldmanninn (9.áratugur) sem hefur slegið svo rækilega í gegn á þessum síðustu og verstu. Gaman að hlusta á það hvað það er lélegt með það fyrir augum að vita hvað þetta er að reyna að verða. Get ekki aðskilið þetta verk úr minni Feldmannólógíu.

En það voru síðdegistónleikar í kirkjunni, þá að kvöldtónleikunum. Það var strengjakvartetta keppni sponsoreruð af eitthverjum annars flokks auðkýfingi. Semsagt allt verk eftir ung tónskáld sem sóttu um að fá að vera með fyrir ári og þurftu svo að sér semja fyrir Arditti kvartettinn, fengu mikinn tíma til að vinna með þeim og fengu tækifæri (þeir sem vildu) að hanna rafhljóðavesen í StrætisWögnumReykjavíkur (SWR rundfunk, svæðisútvarp suðvesturlands, Stokkseyri). Öll verkin hljómuðu eins og þau væru samin til að vinna í keppni, höfðu sumsé verulegan „keppnisanda“ en það er ekki þar með sagt að þau hafi verið vond, þau voru bara svona svakalega „glæsileg“, öll. Fyrsta verkið var 7.strengjakvartett Bartoks eftir Birke Berelsmeier. Næst var langbesta verkið, sem vann þó ekki, clearing eftir Kristian Ireland. Það byrjaði á agressífum skrúðningi og um miðbik verksins var geðveikt sánd í gangi sem ég hélt að væri að koma úr tölvunni, en nei þá var bara helvítis sellóið með eitthvað sánd sem gert er með hálfgerðum yfirtón sem er að detta inn og út, smá sul ponticello og svona einu hári af boganum (útskýring höfundar verksins). Fallegt í formi og magnþrungin spilamennska popparanna skemmdi ekki fyrir. Næst var verk eftir hina portúgölsku Patriciu Manuelu Fernandes Sucena de Almeida og var það næst besta stykki tónleikanna. Það var aðeins minni „vinningshafi“ í stíl en hin verkin og var með svona allar raddirnar að hjóla í köku stopp hjóla í köku stopp hjóla í köku… gaman. Síðast fyrir hlé kom Serbneskt verk eftir Miliciu Djordevic sem er fædd 1984 og yngst á prógramminu, verkið hefði verið fínt hefði það ekki verið léleg útgáfa af verkinu hans Kristian og með of miklum Kontröstum og mússík.
Eftir hlé voru svo verk með elektróník. Ég hef eitt svona almennt um það að segja. Mér er hugsað til Roscoe Mitchell sem sagði um spuna að þegar fólk er of mikið að reyna að kalla og svara, þá verður útkoman eins og allir séu að lesa mússík og einn sé eftirá. Svona samplihljóðbjögun, spiluð til baka eftirá er svipað fyrirbæri. Öll verkin eftir hlé voru þannig, og synthesa milli rafhljóða og hljóðfæra var enginn önnur en sú að þetta voru oft bara lítt breyttar upptökur spilaðar til baka, í öllum verkunum. Rafhljóðin voru líka einstaklega ótilraunakennd og óævintýraleg og óskiljanlegt af hverju rosa stúdíu á suðvesturlandi skildi þurfa að hafa nokkuð að gera með þetta. En verkin eftir hlé voru léleg fyrir utan verk eftir Christopher Trebue Moore sem var hart og flott, og kannski best raflega séð líka.

Eitt af lélegu verkunum eftirhlé vann. Væmið og asnalegt með lélegri elektróník. Davíð hafði þó séð fyrir að það myndi vinna þrátt fyrir að finnast það ekkert gott.

Leave a Reply