July 7

mánudagur
Posted on July 7th, 2008 at 6:39 PM by aki

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
mánudagur, 07 júlí 2008
Já þá byrjuðu fyrirlestrarnir, þá byrjaði vesenið mikla. Þetta er mikið af fólki, mikið af sveittum ungum tónskáldum, stór kleinuhringur. James Clarke hóf leikinn á því að tala um verk sitt frá kvöldinu áður sem ég eyðilaggði fyrir sjálfum mér með því að bera það endalaust saman við For Samuel Beckett eftir Morton Feldman, af því að það byrjaði svipað en ég gat ekki hugsað um hvað það var og af hverju það væri svona miklu lélegra en mikilfenglegasta þessi tónsmíð allra tíma (s.s. fsb eftir mf). Það var því merkilegt að þessi snyrtilegi breti færi strax að tala um abstrakt expressjónisma, nefnilega Clyfford Stills sem ég er sammála um að sé sá mesti úr þeirri deild. Hann þuldi upp ævisögu málarans sem að er mjög áhugaverð og svona falleg „módernista-rómantík“ um einyrkjann, Ives-inn, sjálfstæða listamanninn sem er ekki háður neinum. Auðvitað leiddi það af sér alveg ógeðslega beisikk umræðu og tveir amrískir spyrjendur fóru hamförum í lélegum löngum og ómarkvissum spurningum sem eyddu tíma viðstaddra og ullu almennri ógleði. Umræðan hélst á beisikk level en varð kveikjan að heillri grein sem ég ætla að vinna í og kemur á bloggið fljótlega, og mun hún nefnast „hefðbundin framúrstefna.“ Það var ekki fyrr en Ferneyháurinn sjálfur kom með rosalega flókna spurningu og það var ekki fyrr en þá að mér fannst ég vera kominn í Darmstadt og farinn að fá eitthvað fyrir peninginn. Í spurningunni sagði Fernerinn meðal annars „varying levels of the sublime“, „a vortex that is somehow semantically sticky“ og svo „semantic granulation.“ Glæsilegt og útfrá þessu fór Clarke loksins að segja fullt af sniðugum hlutum og tala um mismunandi hlutverk endurtekninga og óendurtekninga og hljómræna hugsun sína. Ekkert ótrúlega merkilegt, ekkert ótrúlega nýtt eða ófyrirsjáanlegt, en allt í lagi.
Í hádeginu voru tvö ung tónskáld sem kynntu verkin sín sem voru ekkert það leiðinleg og ekkert það skemmtileg heldur, annar þeirra fékk þó krúttstig þegar hann sagði að þetta væri þriðji dagurinn í lífi hans fyrir utan Kanada þar sem hann er fæddur og alinn.

Eftir hádegi var svo umræða á þýzku (með þýðingum) á milli Manos Tsangaris og Klaus Lang, svona um lífið og bar það yfirskriftina hver semur tónlistina. Almennt bara svona röfl um hættulegar stefnur í skipuleggingu á tónlistarhátiðum þar sem hátíðarskipuleggjendur fara að líta á sig sem listamenn og koma með konsept sem setja allt í samhengi. Klaus Lang kallaði þetta miðaldavæðingu og bar þetta saman við þegar hlutverk tónskálds var bara að fylla inn í messuformið samkvæmt kúnstarinnar reglum og teólógurinn réði. En þeir fóru pínu inn á svona umræðu sem verður kannski kveikja að grein sum mun heita „Adorno, Darmstadt og hetjurnar.“

Eftir að hafa reynt að hlusta á þýzku fékk ég hausverk og þurfti kaffi og varð þar með að sjálfsögðu pínu seinn á áhugaverðasta fyrirlestur dagsins, en það var Marco Stroppa að kynna sig og sínar pælingar. Stórskemmtilegt alveg. Pælingarnar að vísu yfirleitt áhugaverðari en tónlistin, samt fínt. Hann talaði mikið um morfólógíu en þessi málvísinda morfólógía, nefnist orðhlutafræði á alvöru íslensku. Þetta var einmitt það sem ég og Palli rifumst um um daginn þegar ég vildi meina að tungumál eins og enska eða danska, sem hafa einfalda orðhlutafræði séu lélegri en svona æðri tungumál eins og þetta. En orðhlutafræðin fjallar um hvernig orð breytast, t.d. endingar og innri bygging, bæði við beygingar og stigbreytingar, breytingu frá nafnorði í sagnorð og svo framvegis. En Stroppa talaði um búta sem hefðu svip með hvor öðrum og væru mis breytanlegir eftir „vigt“ semsagt að hann skapaði hírarkíu af mikilvægi bútanna í virkni, þannig að þeir mikilvægustu yrðu minnst breytanlegir. Þetta voru fallegar pælingar. Þetta var svona alvöru name-drop og gáfna rúnk þar sem hann talaði um einhvern frakka sem bar saman lífverur og kristalla, Lock og ensku empirísistanna, knowledge theory, vitsmunavísindin góðu og Tversky’s contrast model sem tengist þessu með vigtirnar. Svo talaði hann bara um verk sín og speisjaliseringu, og konseptið sitt chamber electronics, bladíbladí, en mjög áhugaverður fyrirlestur í alla staði þar sem hann snerti á mörgu sem ég hefð nennt að heyra heilan fyrirlestur um, þrátt fyrir misánægjulegar nálganir við pælingarnar í tónlistinni.

Tónleikar kvöldsins voru klassískir tónleikar. Leiknar voru allar etýður Lígetís auk þess sem píanóverk eftir hann frá 8.áratugnum var einnig leikið en það heitir nafni sem ég man ekki, 3 orð 3 kaflar. En það verk var slagari kvöldsins, þessi skemmtilega sýn Ligeti’s á naumhyggjuna, sem gefur hinni talsvert verðlausu naumhyggju aukið verðgildi. Svona hjakki vesen sem mér finnst flott í höndum Ligetis vegna þess að það er raunverulegt hjakk með fölskum tónum en ekki grúv með væmnum seventís fjúsjon hljómum. Etýðurnar hins vegar, þessir miklu doðrantar píanóbókmennta í lok síðustu aldar (og reyndar fram í byrjun þessarar), hin óspilanlega 3.bók og allt þetta… þær runnu pínu saman eftir smá stund. 2.bókin er kannski best að mínu mati en sú þriðja er öll bara eins og varíasjón á fyrsta kaflanum í fyrstu, nótnarunur í sitthvorri hendi í ófyrirsjáanlegum taktskiptingum frá norður-afríku. Rosalega mikil píanómússík. Voðalega svona fínir tónleikar samt þótt sólópíanistinn Thomas Hell hefði verið óþarflega harður að mínu mati, enda hellaður. Píanódúettinn var miklu betri í tískuvitundinni, tvær gamlar konur með risa-afró-permanent. Þó svo að ég sé rosalega hrifinn af gullaldarstykkjum þessa klassíska tónskálds þá fékk ég þá flugu í höfuðið eftir tónleikana að kannski væri Ligeti samt sem áður U2 nútímatónlistar. Þversmekkur, smekkur skoðanakannana, alflatt. Er það kannski? Það eru kannski bara þessi verk frá og með 1985 sirka sem draga úr ást manns á viðfangsefninu. Það er í rauninni skýrleikinn sem hefur alltaf verið svo áberandi hjá Ligeti, og að halda sig við eina pælingu og klára hana og svona. En þetta píanóhjakkföndur er ekkert spennandi í rauninni, þetta er bara afturhvarf til Ungverska Bartókíska þjóðlagapoppsins en með engum skemmtilegum þjóðlögum.

Leave a Reply