Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008
Helmut Lachenmann, fánaberi þýzka hávaðans heiðraði gamla skólann minn með nærverusinni. Í tilefni þess reyndi ég að stalka hann og náði smá tali af meistaranum, sá hann lesa fyrir og fór á tónleika. Í kringum atburðin gerði ég mér líka sérstakar ferðir á bókasafn ucberkeley til að glugga í nokkur skor og hlusta í tölvunni minni. Maka krókinn og gera meira úr nærverunni og finna eitthvað í tónlistinni. Eins og Páll hefur orðað það er Helmut Lachenmann rænitónskáld. Eins og Davíð hefur orðað það er hann svoldið gamaldags í formi. En það breytir ekki því að Helmutinn á glæstan feril að baki með fjöldanum öllum af fyrirtaks óhljóðakammerverkum. Mér þykir þó helst eldri verkin (frá 8.áratugnum) bera af. Kannski dáltið keimlík þessi nýrri og ekki eins öfgakennd og ganga ekki eins langt. Tónleikarnir hófust með Gran Torso sem er strengjakvartett frá þessu gullna tímabili sem ég er að tala um. Ótrúlegt verk sem notar þagnir ótrúlega fallega. Sem betur fer sat ég á öðrum bekk fyrir miðju, annars hefði ég misst af verkinu. Kvartettinn var leiddur af Graeme Jennings sem stóð sig eins og skurðgoð og veifaði stundum boga til að halda kjölturökkunum saman. Þar næst lék Hellarinn sjálfur á slaghörpu, fyrst Wiegenmusik sem er svona nútímaverk frá 1963, ekkert sérstakt við það og síðan lék hann Kinderspiel. Ég fæ ekki betur séð en að Lachenmann sé afbragðspíanisti með mjög harðan áslátt og nákvæmur þótt gamall sé. Soldið mikill pedall eins og tónskálda er von og vísa. Ég trúi því eiginlega ekki að hann sé jafn gamall og hann er sagður vera. Hann lítur út eins og Ingi Garðar, nema bara hraustlegri og beinni í baki, grannur og spengilegur og varla gráhærður. Bara mjög sætur. Þar næst tók Graeme Jennings í fiðlu í hálfkæringi. Lék Toccatinu frá 1986. Það hljómaði eins og verk fyrir sólófiðlu eftir Helmut Lachenmann, ekkert öðruvísi. Vel spilað en samt virkaði fiðlarinn úr karakter, veit ekki, skrýtið. Eftir hlé var svo leikið verkið Allegro Sostenuto sem er svona mega smákammerverk. Langt og mikið verk fyrir píanó, selló og klarinett. Hélt athygli allan tímann og gríðarlega kröftug spilamennska þar sem Matt Ingalls sem er ekki síður þekktur fyrir spunerí í flóanum fór mikinn. Áður hef ég séð spilara úr þessu spila í lélegum uppsetningum á t.d. Xenakis verkum en ég hugsa að veskið hans göethe hafi fengið þessa menn til að æfa sig og þá virkilega sá maður hvað þeir geta. Hrikalegur kraftur í performansnum. Frekar flott verk, ég hefði samt skippað á geisladisk. Í þessu síðasta verki leið mér eins og ég væri á nútímatónlistarhátíð í Baden-Baden árið 1988. Allegro Sostenuto er nútímaverk, það er frá 1988. Gran Torso frá 1972 myndi ég ekki segja að væri nútímaverk. Það er bara mjög gott verk og var besta verk tónleikana.
Hann Helmut vinur minn er bara mjög fínn kall, talar mikið um lustir og menningu en vísaði á bug spurningum mínum um meintar vinstriöfgar í fyrri tíð. Aðspurður um það hvað honum fyndist um að fólk væri alltaf að herma eftir honum sagðist hann ekkert geta gert í því, nema það séu nemendur hans, þá bannar hann þeim það. Þetta virtist vera áþreifanlegt málefni. Hins vegar fer hann oft með nemendur sína í bíó svo þeir tjilli aðeins á pakkanum, til dæmis fór hann með einn hóp á Beavis and Butthead þarna um árið.